Intersport-deildin í kvöld
Suðurnesjaliðin unnu öll leiki sína í Intersport-deildinni í kvöld
KEFLAVÍK-TINDASTÓLL
Keflavík vann góðan heimasigur á Tindastóli í kvöld. Lokastaða var 101-90 en liðin stóðu jöfn í hálfleik 51-51. Eins og tölurnar segja til um, var vörnin hjá Keflavík í fyrri hálfleik ekkert til að hrópa húrra fyrir. Í þriðja leikhluta mættu heimamenn ákveðnir til leiks og spiluðu harða pressuvörn sem skilaði sér í kafla þar sem Keflavík skoraði 25 stig gegn tveimur stigum gestanna. Undir lokin stigu Keflvíkingar af bensíngjöfinni og hleyptu Stólunum full nálægt sér en stigamunur í lokin var 11 stig eins og fyrr sagði.
Guðjón Skúlason var sæmilega sáttur við að landa sigri eftir slakan fyrri hálfleik. „Jú, það er gott að vinna leikinn, en við vorum ekki að spila vel framan af. Við mætum þeim aftur í Hópbílabikarnum um næstu helgi þannig að þessi leikur var ágætur til að finna veikleika þeirra og sjá hvar okkar möguleikar okkar liggja.“
Meiðsli köstuðu þó skugga á sigur Keflavíkur þar sem Arnar Þór fékk slæmt höfuðhögg og missti minnið og var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar og er vonandi að meiðsli hans séu ekki alvarleg.
Derrick Allen var atkvæðamestur Keflvíkinga með 23 stig og 12 fráköst, en Nick Bradford skoraði 21.
Clifton Cook fór fyrir Stólunum með 30 stig og Nick Boyd setti 28.
ÞÓR-GRINDAVÍK
Grindavík lagði Þórsara í heimsókn sinni til Þorlákshafnar 76-86. Grindvíkingar voru mistækir til að byrja með en fundu svo taktinn og höfðu forystu í hálfleik 37-40. Í þriðja leikhluta komust Grindvíkingar 10 stigum yfir en eftir það jafnaðist leikurinn og bilið hélst það sama til enda.
„Þetta var svolítið skrítinn leikur.“ sagði Friðrik Ingi hjá Grindavík. „Eftir að við náðum 10 stiga forystu gekk ekkert hjá hvorugu liðinu. Við vorum að klúðra boltum og hittum illa og leikurinn varð bara einhverskonar hnoð. Þessi sigur var ekki auðveldur vegna þess að Þór er með gott lið, sérstaklega sóknarlega séð og geta refsað. Við höfðum þetta þó, en ekki var það á sókninni.“
Stigahæstur Grindvíkinga var Daniel Trammel, sem skoraði 22 stig og tók 14 fráköst. Þar á eftir kom Darrel Lewis með 20 stig og Páll Axel Vilbergsson skoraði 17 stig.
Hjá Þór var Robins með 19 stig og Brisport með 17 og tók 12 fráköst.
BREIÐABLIK-NJARÐVÍK
Njarðvík vann mikilvægan útisigur á Breiðabliki 85-97. Njarðvíkingum gekk illa í fyrri hálfleik og voru undir í hálfleik 50-49. Það orsakaðist af því að vörnin hriplak í öðrum fjórðungi þar sem Blikar skoruðu 31 stig. Í seinni hálfleik lagaðist leikur gestanna og lönduðu þeir loks góðum sigri. Friðrik Ragnarsson var feginn að ná tveimur stigum í hús. „Við vorum ekki að spila mjög vel en við höfðum þetta þótt við þyrftum að hafa fyrir þessu. Ég held að strákarnir hafi verið farnir að hugsa of mikið um bikarleikinn um helgina en ég er bara feginn að hafa ekki tapað þessum leik í einhverjum vitleysugangi eins og í Hamarsleiknum um daginn.“
Brandon Woudstra var stigahæstur Njarðvíkinga með 36 stig og þar á eftir kom Páll Kristinsson með 21 stig.
Stigahæstur Blikanna var Cedrick Holmes sem skoraði 39 stig og tók 11 fráköst.
Að lokinni 7. umferð deildarinnar er Grindavík enn efst og ósigrað með 14 stig en Keflavík, Njarðvík og Snæfell fylgja í humátt á eftir þeim með 10 stig. Á botninum sitja ÍR, KFÍ og Breiðablik með 2 stig hvert.
Hér má finna tölfræði leikjanna og stöðuna í deildinni