Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 12. desember 2003 kl. 21:02

Intersport-deildin: Ekkert stöðvar Grindavík!

Grindvíkingar eru enn án taps í Intersport-deildinni eftir heimasigur á botnliði ÍR, 104:92. Grindvíkingar byjuðu með látum og náðu fljótlega 10 stiga forskoti, en eftir það virtust þeir verða kærulausir og vörnin var ekki að gana sem skildi. ÍR-ingar gengu á lagið og komust inn í leikinn og náðu forskoti sem þeir héldu í hálfleik 51-53. Heimamenn komu grimmir til leiks í seinni hálfleik og náðu yfirhöndinni mjög fljótt og létu hana ekki af hendi og unnu góðan sigur eins og áður sagði.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með sigurinn þrátt fyrir að vörn sinna manna hafi ekki verið honum að skapi allan leikinn. „Við vorum bara ekki nógu fastir fyrir í vörinni í fyrri hálfleik. ÍR-ingar eru með gott lið og góðan mannskap og það má ekki láta þá í friði því þá geta þeir refsað manni. Þeir hittu vel utan af velli og börðust vel, en við náðum að kippa þessu í lag í seinni hálfleik.“

Páll Axel Vilbergsson skoraði 36 stig fyrir Grindavík og Darrel Lewis og Helgi Jónas Guðfinnsson skoruðu 19 stig hvor. Eugene Christopher skoraði 28 stig fyrir ÍR og Ómar Örn Sævarsson var með 25.

Grindavík er enn á toppi deildarinnar með fullt hús, 20 stig, en ÍR er í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024