Ingvi Rafn á ról í janúar?
Knattspyrnumaðurinn Ingvi Rafn Guðmundsson var rétt í þessu að koma úr aðgerð í Hollandi vegna meiðsla sem hann hlaut í leik gegn ÍBV sumarið 2005. Ingvi hefur verið frá knattsprynu í rúma 16 mánuði og fór til Hollands fyrir skemmstu.
Jón Örvar Arason, öryggisfulltrúi og aðstoðarmaður hjá Keflavíkurliðinu, fór til Amsterdam með Ingva og mun aðgerðin hafa gengið vel þar sem tveir beinnabbar voru teknir í burtu. Nabbarnir hindruðu hreyfingu í ökklanum og þá hreinsaði læknirinn brjóskskemmd sem myndast hafði í ökklanum.
Ingvi sagði að læknirinn hefði gefið sér góðar vonir og munu þeir heyrast nánar að mánuði liðinum, þá fer Ingvi annað hvort aftur til Hollands eða til læknis hér á landi. Ingvi kemur til Íslands á morgun og fer þá rakleiðis í sjúkraþjálfun hjá Fal Daðasyni, sjúkraþjálfara Keflavíkurliðsins.
„Aðstoðarlæknirinn sagði að ökklinn liti vel út og sagði að horfurnar væru ágætar. Ingvi tvíbrotnaði á hægri fæti, brotið var miðlægt og hliðlægt, sköflungsbein brotnaði sem og bein er nefnist fíbula og þá brotnaði ökklaklúlan í sundur,“ sagði Falur Daðason, sjúkraþjálfari, en hann kom að Ingva í Vestmannaeyjum þegar hann brotnaði og sagði að leikmaðurinn knái hefði verið óvenju rólegur miðað við aðstæður. „Við stefnum að því að hann verði kominn á ról með liðinu í janúar,“ sagði Falur að lokum en lofaði þó engu.
[email protected]