Inguson stimplaði sig inn.
Bandaríkjamaðurinn Riley Inge(Inguson hér að ofan) rak af sér slyðruorðið í sókninni í síðari sigurleik Njarðvíkinga gegn Hamri 86-80. Skoraði Riley 33 stig, 5 stigum meira en „stigamaskínan” Brandon Titus, og öfugt við Brandon alveg án þess að breyta sóknarleik Njarðvíkurliðsins. Honum var hreinlega launuð mörg stoðsendingin í undanförnum leikjum og nú setti hann skotin niður. Eftir næsta auðveldan 85-61 sigur í Njarðvík þurftu deildarmeistararnir virkilega að hafa fyrir hlutunum í Hveragerði þar sem margir leikmenn Hamarsliðsins sýndu hve miklu eitt tímabil í efstu deild getur kennt leikmönnum og gaman verður að sjá til þeirra næsta haust. Margnefndur Inguson var bestur Njarðvíkinga ásamt Teiti Örlygssyni sem tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar með stigunum sínum 18. „Þetta var skylduverkefni sem við leystum ágætlega úr hendi. Þeir reyndust okkur erfiðir í Hveragerði en okkur tókst að klára það. Það má eiginlega segja að Riley Inge hafa landað þessum sigri fyrir okkur en hann er alltaf komast betur inn í leik liðsins” sagði Friðrik Ragnarsson fyrirliði Njarðvíkinga.Verður ekki erfitt að undirbúa sig fyrir KR „Ég hlakka til að taka á móti KR og munum við taka hraustlega á móti þeim. Fagnaðarlæti þeirra í lok leiksins í undanúrslitum bikarsins, fyrsta leiknum eftir andlát Örlygs, líða okkur seint úr minni og því verður huglægi undirbúningurinn leikur einn gegn þeim” sagði fyrirliði Njarðvíkurliðsins, Friðrik Ragnarsson, aðspurður um hvernig honum litist á að mæta KR í undanúrslitum Íslandsmótsins.Grindvíkingar taka Hauka 3-1Friðrik Ragnarsson lá ekki á skoðun sinni um hina rimmuna, Grindavík - Haukar. „Haukarnir eru raun óskrifað blað í úrslitakeppninni og spái því að Grindvíkingar hafi þá í 4 leikjum. Þeir eru með sterkan og reynslumikinn hóp”.