Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ingibjörg Yrsa í U-17 landsliði Íslands
Þriðjudagur 12. júlí 2011 kl. 09:30

Ingibjörg Yrsa í U-17 landsliði Íslands

Grindvíkingurinn Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir hefur verið valin í U-17 landslið kvenna í knattspyrnu sem tekur þátt í úrslitakeppni EM sem fram fer í Sviss. Hún er annar af tveimur nýliðum í hópnum.

Þorlákur Árnason, landsliðsþjálfari U17 kvenna, hefur valið hópinn er tekur þátt í úrslitakeppni EM U17 kvenna í Sviss. Þessi úrslitakeppni fjögurra þjóða stendur frá 28. - 30. júlí og leikur Ísland gegn Spáni í undanúrslitum, fimmtudaginn 28. júlí, en Spánverjar eru núverandi handhafar þessa titils. Í hinum undanúrslitaleiknum leika Þjóðverjar og Frakkar.

Sigurvegarar undanúrslitaleikjanna leika svo til úrslita, laugardaginn 30. júlí, en tapliðin etja kappi í leik um 3. sætið sama dag. Úrslitaleikurinn verður í beinni útsendingu á íþróttastöðinni Eurosport. Allir leikir keppninnar fara fram á Colovray í Nyon sem er skammt frá höfuðstöðvum UEFA.

Þess má geta að Ingibjörg Yrsa lék með unglingalandsliði Íslands í körfubolta í vetur og því ljóst að þarna er mikil íþróttakona á ferð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024