Ingibjörg skoraði í sigri Vålerenga
Ingibjörg Sigurðardóttir og félagar hennar í Vålerenga tóku á móti Arna-Bjørnar í gær í norsku úrvalsdeildinni. Leiknum lyktaði með 2:0 sigri Vålerenga og voru það Íslendingarnir í liðinu sem skoruðu bæði mörkin á sömu mínútunni.
Leikurinn var alger einstefna og átti Arna-Bjørnar, sem er í neðsta sæti deildarinnar, í vök að verjast gegn sterku liði Vålerenga. Það var Grindvíkingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir sem kom Vålerenga yfir eftir að hafa fengið fyrirgjöf úr aukaspyrnu og Amanda Andradóttir skoraði seinna markið, bæði mörkin komu á 75. mínútu.
Vålerenga er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir og er í þriðja sæti deildarinnar á markatölu en fjögur lið hafa unnið alla sína leiki. Næst mæta Ingibjörg og félagar Klepp sem er í fimmta sæti.
Í spilaranum hér að neðan má sjá samantekt úr leiknum í gær.