Ingi Rúnar ráðinn íþróttastjóri GS
Ingi Rúnar Gíslason, golfkennari, hefur skrifað undir samning við Golfklúbb Suðurnesja um að hann taki við starfi sem íþróttastjóri GS. Samningurinn var undirritaður í dag. Markmið samningsins er að efla barna- og afreksstarf klúbbsins. Ingi Rúnar mun einnig bjóða upp á alla almenna kennslu fyrir félagsmenn GS.
Ingi Rúnar er margreyndur golfkennari og starfaði um árabil hjá Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ þar sem hann náði góðum árangri. Kristján Þór Einarsson, sem varð Íslandsmeistari árið 2008 og verið einn besti kylfingur landsins um árabil, hefur starfað náið með Inga.
Ingi Rúnar hefur samhliða golfkennarastarfi sínu starfað sem fararstjóri í golfferðum erlendis. Það verður spennandi að sjá hvort að Inga takist að lyfta upp barna- og afreksstefnu GS en margir frábærir kylfingar hafa komið úr Golfklúbbi Suðurnesja í gegnum tíðina.