Igor: Þétt dagskrá framundan
Igor Beljanski var í dag útnefndur besti þjálfarinn í Iceland Express deild kvenna fyrir umferðir 10-17. Í þessum umferðum vann Grindavík 7 leiki og tapaði einum og var með besta sigurhlutfall allra liða í deildinni. Igor Beljanski þjálfari liðsins kvaðst ánægður með frammistöðu liðsins og sagði að á næstu dögum og vikum myndu Grindvíkingar fara vel ofan í saumana á frammistöðu liðsins á útivöllum sem leikur jafnan frábærlega heima en hefur ekki tekist að sýna eins leiki að heiman.
,,Ég er mjög ánægður og þetta er árangur erfiðisins sem stelpurnar hafa verið að leggja í liðið að undanförnu. Vonandi höldum við bara áfram að byggja ofan á þennan árangur og að hafa unnið sjö leiki og tapað einum á þessum kafla í mótinu er mjög gott en það er eitthvað sem ég væri líka til í að sjá á lokasprettinum í deildinni,” sagði Igor sposkur en Grindavík á í harðri toppbaráttu við Keflavík, KR og Hauka.
,,Það er mjög þétt dagskrá framundan og erfitt fyrir þjálfara að láta leikmenn einbeita sér að næstu verkefnum þegar bikarúrslitaleikurinn er handa við hornið,” sagði Igor en Grindvíkingar hafa aldrei orðið bikarmeistarar og reyna það í fjórða sinn um þarnæstu helgi er þær mæta bikarmeisturum Hauka í Laugardalshöll.
,,Við munum engu að síður einbeita okkur að fullu í næstu verkefnum. Við erum að gera frábæra hluti á á heimavelli en ég get ekki útskýrt það nákvæmlega hvað er að fara oft úrskeiðis hjá okkur á útivelli. Við reynum alltaf að verja heimavöllinn og ég mun nota næstu daga og vikur til að koma Grindavík í betra horf á útivelli, það verður vandasamt verkefni en við munum ráða fram úr því,” sagði Igor ákveðinn.
Næsti leikur Grindavíkur er gegn Fjölni annað kvöld í Grindavík kl. 19:15.
VF-Mynd/ [email protected] – Igor tekur við viðurkenningunni sem besti þjálfari umferða 10-17. Með honum á myndinni er Hannes S. Jónsson formaður KKÍ.