Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Igor lék meiddur í gærkvöldi
Föstudagur 11. janúar 2008 kl. 11:14

Igor lék meiddur í gærkvöldi

Miðherji Grindavíkur, Igor Beljanski, mun fara í myndatöku í dag þar sem hann meiddist í upphitun fyrir leik KR og Grindavíkur í Iceland Express deildinni í körfubolta í gærkvöldi. Þessi meiðsli komu þó ekki að sök þar sem Igor lék í 24 mínútur, gerði 12 stig og tók 8 fráköst. Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindvíkinga, þorði ekki að spá fyrir um meiðsli Igors en sagði að sjúkrþjálfari liðsins teldi að beinflís í fæti Igors hefði hreyfst til.

 

,,Þetta mun víst vera gömul beinflís sem er að nuddast eitthvað og það er ekki óalgengt að vart verði við svona meiðsli hjá íþróttamönnum. Igor fer í myndatöku í dag og því lítið hægt að segja til um framhaldið,” sagði Friðrik í samtali við Víkurfréttir.

 

,,Sjálfur geri ég mér vonir um að Igor verði með gegn Þór á sunnudag,” sagði Friðrik og bætti við að hann væri ánægður með frammistöðu Igors að undanförnu.

 

,,Við höfum verið að senda boltann meira inn á Igor í síðustu leikjum og framan af var það partur af vandamálinu í okkar leik að við vorum ekki að koma boltanum til hans í teignum. Það sást bara í gær að þegar Sola var að dekka Igor og fékk ekki hjálp þá skoraði Igor gegn honum. Þá opnast einnig fyrir skytturnar okkar þegar Igor fær boltann og þannig náum við meira jafnvægi í okkar leik sem er hagur allra,” sagði Friðrik.

 

Það ræðst því síðar í dag hvort Igor þurfi að vera eitthvað frá sökum þessara meiðsla en það gæti reynst Grindvíkingum þungbært þar sem Igor hefur leikið vel að undanförnu.

 

Eftir sigurinn á KR í gærkvöldi eru Grindvíkingar með 18 stig í 3. sæti deildarinnar en KR og Keflavík hafa 20 stig á toppnum. Keflavík á tvo leiki til góða gegn KR og einn á Grindavík og með sigri á Snæfell í kvöld komast þeir að nýju einir á toppinn.

 

VF-Mynd/ [email protected]Igor Beljanski ver hér skot frá Joshua Helm í viðureign liðanna í gærkvöldi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024