ÍG í 1. deild að ári
Í Röstinn á föstudagskvöld mættust ÍG og Reynir Sandgerði í undanúrslitum 2. deildar og því var um mikinn Suðurnesjaslag að ræða. Svo mikið var í húfi að einn albesti dómari landsins, Keflvíkingurinn Kristinn Óskarsson og sonur hans Ísak, dæmdu viðureignina. Svo fór að ÍG fór með sigur af hólmi í hörku leik og tryggðu sér sæti í 1. deild næsta vetur.
En það byrjaði ekki vel hjá heimamönnum en Haraldur Jóhannesson sem er einvaldur, þjálfari og leikmaður liðsins, fékk botlangakast fyrr um daginn þannig að ÍG menn þurftu að sjá um sig sjálfir í leiknum. Jafnræði var með liðunum fram af en staðan í hálfleik var 36-31 ÍG Í vil. Í þriðja leikhluta skildu leiðir og ÍG menn náðu góðri forystu og héldu henni allt til loka og lokatölur urðu 83-71.
ÍG vann sér þar með inn rétt til að spila í fyrstu deild að ári og munu mæta HK eða ÍA í hreinum úrslitaleik um hverjir séu sigurvegarar 2. deildarinnar.
Athygli vakti að tveir leikmenn knattspyrnuliðs Grindavíkur þeir Óskar Pétursson og Orri Freyr Hjaltalín létu nokkuð að sér kveða í leiknum.
Stig ÍG: Bergvin Ólafarson 28, Guðmundur Ásgeirsson 23, Orri Freyr Hjaltalín 9, Ásgeir Ásgeirsson 8, Óskar Pétursson 6.
Stig Reynis: Róbert Þór Tóbíasson 17, Ólafur Geir Jónsson 13, Hlynur Jónsson 13, Elvar Þór Sigurjónsson 10.
Frétt frá grindavik.is.
Mynd/grindavik.is: Strákarnir í ÍG eftir sigurleikinn á föstudag.