Ifeoma fór á kostum: Syrtir í álinn hjá Keflavík
Margfaldir meistarar Haukakvenna eru með pálmann í höndunum eftir 101-115 sigur á Keflavík í öðrum úrslitaleik liðanna í Iceland Express deild kvenna í dag. Staðan er því 2-0 Haukum í vil í einvíginu og þurfa þær aðeins einn sigur til viðbótar til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð. Fátt eða ekkert virðist ætla að koma í veg fyrir að svo verði sé tekið mið af leik Haukakvenna þessa dagana. Sama staðan var uppi á teningnum í fyrra þar sem Haukar lögðu Keflavík 3-0 í úrslitaeinvíginu.
Sigrún Ámundadóttir gerði fyrstu stig leiksins fyrir Hauka en María Ben jafnaði metin fyrir Keflavík. Með fínni upphafsrispu komust Haukar í 11-17 en Keflavík minnkaði muninn í 23-26 þegar níu sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta. Haukar tóku innkastið og sendu boltann á Helenu sem dripplaði upp völlinn. Þegar Helena var komin rétt rúmi skrefi inn fyrir miðju skaut hún flautuskoti í átt að körfunni og boltinn rataði beint ofan í netið við mikinn fögnuð Haukakvenna. Staðan 23-29 að loknum 1. leikhluta.
María Ben dreif Keflavíkurkonur áfram í 2. leikhluta og áttu Haukar í töluverðu basli með hana í teignum. Keflavík minnkaði muninn í 39-43 eftir fjögur vítaskot frá Maríu Ben þar sem Unnur Tara Jónsdóttir hafði brotið á Maríu í sniðskoti og í ofan á lag fékk hún dæmt á sig tæknivíti fyrir mótmæli við dómara. Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hauka, kippti Sigrúnu á bekkinn enda var hún komin með fjórar villur.
Birna Valgarðsdóttir kom Keflavík í 47-45 með þriggja stiga körfu og mikið kapp hljóp í Keflavíkurliðið fyrir vikið sem breyttu stöðunni svo fljótt í 52-45. Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 59-50 Keflavík í vil og mikil stemmning komin í herbúðir Keflavíkur og lykilmenn hjá Haukum í bullandi villuvandræðum. Unnur Tara var með fjórar villur en þær Pálína, Kristrún og Guðrún voru allar með þrjár villur hjá Haukum. Svava Stefánsdóttir var heit við þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik og var komin með 13 stig fyrir Keflavík en hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir komin með 15 stig.
Ifeoma Okonkwo fór á kostum fyrir Hauka í þriðja leikhluta og gerði 11 stig í leikhlutanum þar sem Haukar náðu að jafna metin í 72-72 og komust síðar yfir 76-78 þar sem Ifeoma gerði lokastig leikhlutans þegar 20 sekúndur voru eftir. Frábær leikhlut hjá Haukum sem gerðu 28 stig gegn 17 frá Keflavík í leikhlutanum.
Helena Sverrisdóttir gerði þriggja stiga körfu í upphafi fjórða leikhluta og staðan 76-81 Haukum í vil sem við þetta tóku að herða enn róðurinn og auka muninn uns staðan var orðin 85-99 eftir tvær þriggja stiga körfur í röð frá Helenu og fimm mínútur til leiksloka. Eftir þennan ofsafengna upphafskafla Hauka áttu Keflavíkurkonur aldrei möguleika á því að komast aftur inn í leikinn og því fór sem fór, 101-115 Haukum í vil og langt um liðið síðan jafn háar tölur hafa sést í kvennaboltanum án þess að grípa hafi þurft til framlengingar.
Ifeoma Okonkwo var vafalítið besti maður vallarins með 37 stig og 13 fráköst fyrir Hauka en næst henni var Helena Sverrisdóttir með 33 stig og 15 stoðsendingar. Sigrún Ámundadóttir átti einnig góðan dag í liði Hauka með 21 stig. Hjá Keflavík var María Ben Erlingsdóttir með 26 stig og 4 fráköst en þær TaKesha Watson og Svava Stefánsdóttir voru báðar með 18 stig. Watson var með þrennu í dag, 18 stig, 16 stoðsendingar og 12 fráköst en þessi magnaði leikur Watson dugði Keflavík skammt.
Keflavíkurkonur eiga Bryndísi Guðmundsdóttur alveg inni sem hefur ekki verið að finna fjölina í þessu úrslitaeinvígi en hún gerði aðeins 5 stig fyrir Keflavík í dag en hún var með 13,7 stig að meðaltali í leik í deildarkeppninni í vetur.
Þriðji leikur liðanna fer fram að Ásvöllum á þriðjudag kl. 19.15 þar sem Haukar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð og eru allar horfur á því að svo verði enda hafa þær unnið 27 leiki í röð á heimavelli.
Gangur leiksins
2-5,16-24,23-29
28-33,39-43,59-50
66-58,70-64,76-78
81-85,85-99,101-115