Idol stjarnan skoraði en Njarðvík missti niður unninn leik
Njarðvíkingar urðu að sætta sig við 2-2 jafntefli gegn KS Leiftri í fyrsta leik sumarsins í 2. deildinni en leikurinn fór fram á Njarðtaksvellinum í Reykjanesbæ um liðna helgi. Njarðvíkingar höfuð náð tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik, sem þeir töpuðu niður í jafntefli í þeim síðari.
Kristinn Björnsson skoraði fyrra mark Njarðvíkur strax á fimmtu mínútu. Seinna mark Njarðvíkur skoraði Idol stjarnan Árni Þór Ármannsson eftir hraðaupphlaup heimamanna skömmu fyrir leikhlé.
Njarðvíkingar ógnuðu marki gestanna nokkrum sinnum í síðari hálfleik án þess þó að skora. KS Leiftur minnkaði muninn á 75. mínútu og jöfnuðu síðan leikinn á þeirri 87. Úrslitin sanngjörn, segir á heimasíðu Njarðvíkur, umfn.is
Myndir: Árni Þór Ármannsson skorar annað mark Njarðvíkur í leiknum gegn KS Leiftri sl. laugardag.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson