Iðnaðarsigur hjá Njarðvík
Njarðvíkingar lönduðu sínum þriðja sigri í röð í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar þeir unnu Vestra á Rafholtsvellinum í dag. Rafael Victor reyndist hetja heimamanna en hann skoraði bæði mörkin.
Njarðvík náði forystu á 12. mínútu þegar Gísli Martin Sigurðsson átti frábæra sendingu inn á markteig þar sem Oumar Diouck skallaði boltann í slánna, Rafa Victor náði frákastinu og kláraði færið með marki.
Skömmu eftir markið mætti fyrirliðnn Marc McAusland í sóknina og lenti í samstuði við markvörð Vestra. McAusland lá óvígur eftir samstuðið og eftir að búið var að hlúa að honum hélt hann áfram leik en þurfti að fara af skömmu síðar.
Færin létu standa á sér og einkenndist fyrri hálfleikurinn af talsverðri hörku þar sem bæði lið reyndu að ná undirtökunum. Vestri hélt boltanum meira og má segja að eina alvöru færi þeirra hafi komið eftir rúmlega hálftíma leik þegar sóknarmaður slapp inn fyrir vörnina en Robert Blakala mætti honum og varði vel, boltinn barst til annars sóknarmanns Vestra sem skaut viöstöðulaust en Blakala var eins og köttur og varði aftur.
Njarðvík leiddi því með einu marki í hálfleik en í seinni hálfleik þyngdist róðurinn. Vestri náði tökum á miðjunni og sótti stíft en vörn Njarðvíkur var vandanum vaxin. Sigurjón Már Markússon stjórnaði öftustu línu heimamanna eins og herforingi í fjarveru McAusland og þá voru þeir Alex Bergmann Arnarson, Þorsteinn Örn Bernharðsson og Hreggviður Hermannsson ekki síðri í að stöðva allar sóknartilburði gestanna.
Það má segja að seinna mark Njarðvíkur hafi verið gegn gangi leiksins en það kom upp úr aukaspyrnu sem Njarðvík fékk á hægri kanti. Joao Ananias Jordao Junior tók frábæra spyrnu og hitti beint á kollinn á Rafa Victor sem var andartaki á undan markverði Vestra og sneiddi boltann framhjá honum í markið (71').
Það sem eftir lifði leiks reyndu gestirnir örvæntingarfullt að koma marki á heimamenn sem voru í nauðvörn síðustu mínúturnar – en vörn Njarðvíkur var á tánum og vann ófáar tæklingarnar og skallaeinvígi. Þannig að allar sóknir Vestra voru stoppaðar og 2:0 sigur staðreynd.
Með sigrinum komst Njarðvík tímabundið úr fallsæti á kostnað Þróttar en Þróttarar unnu Selfoss seinna í dag og komust aftur upp fyrir Njarðvík
Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, var á vellinum í dag tók viðtal við Sigurjón Má eftir leik. Viðtalið og myndir úr leiknum má sjá hér að neðan.