Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Icelandic Chess: Skemmtileg útfærsla af hefðbundinni skák
Óli hér að tefla við barnabarnið Elsu Margréti Björgvinsdóttur. Takið eftir grænu reitunum á miðju taflborðinu, þetta er orkusvæðið.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 28. júní 2022 kl. 07:25

Icelandic Chess: Skemmtileg útfærsla af hefðbundinni skák

Keflvíkingurinn Óli Þór Kjartansson er mikill áhugamaður um skák. Hann hefur samið leikreglur fyrir tilbrigði við hina hefðbundnu skákíþrótt sem hann kallar Íslenska skák (Icelandic Chess). Óli segir íslensku skákina ekki koma til með að leysa þá skák sem við þekkjum af hólmi en brjóti upp hina hefðbundnu skák.

„Ég var búinn að vera með þessa hugmynd í maganum í nokkur ár og hugsaði með mér að annað hvort myndi ég gera eitthvað með hana eða leggja hana frá mér,“ segir Óli í viðtali við Víkurfréttir. „Nútímaskák er búin að vera leikin eins í yfir 200 ár og það er búið að skrifa þúsundir bóka um skák. Þeir sem eru góðir í skákíþróttinni eru búnir að leggja velflestar byrjanir á minnið og sé vikið frá „klassískum“ byrjunum eru mestar líkur á að skákin sé töpuð.“

Litlar breytingar – en breyta miklu

Óli segir að íslenska skákin sé í grunninn nákvæmlega eins og hin hefðbundna, taflmönnunum er raðað upp á sama hátt, þeir hafa sama gang og hvítur byrjar. „Allt eins og í venjulegu tafli nema að á miðju taflborðinu eru átta reitir (C4, C5, D4, D5, E4, E5, F4 og F5) sem ég kalla orkusvæði (energy zone). Sé taflmönnum leikið inn á það svæði geta þeir tekið eiginleika félaga sinna og mega leika þannig innan og út af orkusvæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sem dæmi, ef riddara er leikið inn á orkusvæðið getur hann, til viðbótar við sinn hefðbundna gang, leikið eins og drottning í næstu umferð. Sama á við um hrók, biskup og drottningu – þessir taflmenn geta allir leikið eins og riddari eða drottning ef þeir eru á orkusvæðinu. Einu mennirnir sem fá ekki þennan „aukakraft“ á orkusvæðinu eru kóngur og peð, þeirra hlutverk breytast ekki. Þá getur kóngur óvirkjað þessa eiginleika andstæðingsins sé honum leikið inn á orkusvæðið.“

Hverju breytir þetta um gang skákarinnar?

„Það sem breytist er að þessar klassísku byrjanir duga ekki lengur. Þær þúsundir byrjana sem menn hafa stúderað í gegnum árin miðast við hefðbundinn gang taflmannanna og því eiga frjóir leikmenn góða möguleika án þess að vera búnir að leggja fjöldan allan af byrjunum á minnið. Það hafa ekki allir góðir skákmenn gott minni.“

Óli hefur tryggt sér höfundarréttinn að leikreglum íslensku skákarinnar.

Óli hefur útbúið leikreglur íslensku skákarinnar og er búinn að tryggja sér höfundarréttinn. Hann vinnur nú að því að því að koma síðunni icelandicchess.com í loftið og næstu skref eru að kynna hans tilbrigði við skák.

„Það er auðvitað búið að gera óteljandi tilbrigði við skákina en ég hef sýnt stórmeistara mína útfærslu og hann var mjög hrifinn af henni, sagði að þessi væri sú besta sem hann hefði séð hingað til.

Þeir sem kunna mannganginn þurfa bara að lesa leikreglurnar yfir einu sinni og þá eru þeir búnir að læra hvernig eigi að tefla íslensku skákina – þetta er svo lítil breyting en samt svo mikil,“ segir Óli að lokum og það verður fróðlegt að sjá hvort þetta tilbrigði við skák muni ná útbreiðslu á næstunni.