Iceland Express-deild kvenna - Keflavík tapaði gegn Haukum
Í kvöld voru þrír leikir hjá Suðurnesjaliðunum á dagskrá í Iceland Express-deild kvenna. Keflavík tók á móti Haukum á heimavelli, Grindvíkingar fóru vestur á Stykkishólm og Njarðvík tók á móti Fjölnisstúllkum í Ljónagryfjunni.
Keflvíkingar tóku eins og áður segir á móti Haukum og fóru leikar þannig að Haukar höfðu sigur í jöfnum leik 84-81. Keflavíkurstúlkur voru yfir í hálfleik 47-40 en í síðari hálfleik reyndust Haukar stekari og lönduðu sigri á lokasprettinum. Atkvæðamestar hjá Keflavík voru þær Jacquline Adamshick með 27 stig/8 fráköst og Bryndís Guðmundsdóttir með 22 stig/9 fráköst, aðrir leikmenn voru langt frá sínu besta. Ljósmyndir frá leiknum má í ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.
Ljósmynd efst: Siggi Jóns
Njarðvíkingar lönduðu góðum sigri á Fjölnisstúlkum á heimavelli nú fyrir stundu. Njarðvíkingar höfðu frumkvæði stærstan hluta leiksins og höfðu að lokum sigur 86-79. Atkvæðamestar hjá Njarðvík voru þær Shayla Fields með 31 stig, Dita Liepkalne með 19 stig/9 fráköst og Julia Demirer með 9 stig/10 fráköst.
Grindavík gerði sannarlega góða ferð vestur og leggja af stað suður með sigur í farteskinu í kvöld. Leikurinn var jafn allan tímann en í síðasta fjórðungi náðu Snæfellingar einungis að skora 9 stig gegn þó aðeins 13 hjá Grindavík. Þar lá þó munurinn og Grindavíkursigur ljós 72-67. Atkvæðamestar í liði Grindavíkur voru þær Janese Banks með 25 stig/12 fráköst, Agnija Rake 13 stig/9 fráköst og Helga Hallgrímsdóttir gældi við þrefalda tvennu með 9 stig/8 fráköst/8 stoðsendingar.
EJS