Iceland Express Cup: Örgryte sigurvegarar, Keflavík tryggir sér bronsið með stórsigri á KR
Örgryte eru sigurvegarar á Iceland Express mótinu í knattspyrnu eftir 3-1 sigur í úrslitaleik gegn ÍA.
ÖRGRYTE-ÍA 3-1
Svíarnir komust yfir strax á 2. mínútu þegar Eric Gustavsson skoraði. Fyrri hálfleikurinn var annars tíðindalítill, en skömmu áður en flautað var til hálfleiks áttu Örgryte dauðafæri þar sem Þórður Þórðarson markvörður ÍA bjargaði sínum mönnum fyrir horn.
Í byrjun seinni hálfleiks jöfnuðu Skagamenn leikinn þegar Dawid Banaczek, pólskur leikmaður sem er til reynslu hjá liðinu, skoraði eftir mikla pressu og vel útfærða sókn. Strax eftir markið jókst sóknarþungi Svíanna til muna og skall hurð nærri hælum þegar sóknarmaður Örgryte fór illa með dauðafæri. Pressan skilaði loks árangri á 60. mínútu þegar Christian Hemberg náði forystunni á ný fyrir þá sænsku með frábæru skoti upp í markvinkilinn. Eftir markið róaðist leikurinn en þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum voru Skagamenn óheppnir að nýta ekki dauðafæri sem þeir fengu. Þeim var svo refsað á hinum enda vallarins þegar Erik Johannesson gerði út um leikinn með laglegu marki eftir frábæra sókn.
Þjálfarar beggja liða voru hæstánægðir með mótið og framkvæmd þess. „Þetta var meiriháttar mót og frábærlega að verki staðið og eiga Keflvíkingar hrós skilið fyrir allt.“, sagði Ólafur Þórðarson, þjálfari Skagamanna, og bætti við að ef honum yrði boðið til þátttöku á næsta ári þyrfti hann ekki að hugsa sig tvisvar um.
Kollegi Ólafs hjá Örgryte, Finninn Jukka Ikäläinen, var að sama skapi ánægður með mótið. „Þetta var gott mót og ég er ánægður með það. Við fengum tvo góða leiki, en ég er hræddur um að þeir hafi verðið fullerfiðir svo snemma á undirbúningstímanum.“ Aðspurður sagði hann íslensku leikmennina ekki hafa komið sér á óvart þar sem hann hafi vitað fyrir fram að Íslendingar séu líkamlega sterkir og erfiðir við að eiga í návígum og skallaboltum.
KEFLAVÍK-KR 6-0
Þá vann Keflavík stórsigur á KR, 6-0, í leik um þriðja sætið. Lið KR-inga samanstóð að vísu að mestu leyti af ungum leikmönnum þar sem liðið á leik á Reykjavíkurmótinu á morgun, en sigurinn var sætur engu að síður.
KR komst lítt áfram gegn heimamönnum, sem létu boltann ganga afskaplega vel og voru með yfirhöndina í leiknum allan tímann.
Jakob Jónharðsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, var ánægður með mótið í heild sinni, en fannst súrt í broti að fá ekki að spreyta sig gegn Örgryte og var heldur ekki alveg sáttur við að fá ekki sterkara KR lið í dag. „En það er gott að fá að spila gegn svo sterkum liðum, eins og eru hér á mótinu, á æfingatímabilinu til að skoða liðið og athuga hvað má betur fara hjá okkur.“
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, er sammála öllum um að mótið hafi farið einstaklega vel fram. En var ekki alveg nógu sáttur við frammistöðu sinna manna í dag, en eins og áður sagði, tefldi hann fram hálfgerðu varaliði. „Það er nú alger óþarfi að tapa 6-0 þó að menn séu ungir. En við fengum alveg frábæran leik í gær og ég vona bara að þetta mót sé komið til að vera.“
Markaskorarar: Hörður Sveinsson 22. mín, Hólmar Örn Rúnarsson 33. mín, Haraldur Guðmundsson 55. mín, Zoran Ljubicic (víti) 63. mín, Magnús Þorsteinsson (víti) 88. mín, Sigurður Markús Grétarsson, 91. mín.