ÍBV sló kraftlausa Keflvíkinga úr bikarnum
Keflavík tók á móti ÍBV í dag í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu. Keflvíkingar komust illa í takt við leikinn og var refsað fyrir einbeitingarleysi í vörninni með tveimur mörkum á skömmum tíma í seinni hálfleik.
Eftir markalausan fyrri hálfleik voru það Keflvíkingar sem fengu fyrsta dauðafærið í leiknum. Þá fékk Dröfn Einarsdóttir boltann alein og yfirgefin á markteig gestanna snemma í seinni háfleik en Dröfn hitti boltann illa og skaut yfir markið.
Keflvíkingar lentu svo undir þegar Ana Paula Santos Silva varð fyrir því óhappi að skora sjálfsmark eftir hornspyrnu Eyjakvenna (66'). ÍBV var svo aftur á ferðinni tveimur mínútum síðar þegar þær komu upp vinstri kantinn, leikmaður ÍBV lék inn í teig Keflavíkur og lét gott skot vaða í samskeytin fjær (68').
Keflavík reyndi að bæta í en einhver deyfð var yfir liðinu í dag og þær náðu sér aldrei almennilega í gang. Vantaði allan kraft, hungur og vilja til að klára leikinn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir og ræddi við Kristrúnu Ýr Holm, fyrirliða Keflavíkur, eftir leik. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.