Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 26. júlí 2000 kl. 10:02

Í þriðja sæti á US Open

Jóhann Kristbjörnsson, 27 ára gamall Keflvíkingur lenti í mjótorhjólaslysi fyrir sex árum síðan og lamaðist fyrir neðan brjóst. Lömunin hefur þó ekki náð að draga þennan dugnaðarfork langt niður. Hann lagaði sig að fötluninni og fór að stunda borðtennis af fullum krafti fyrir þremur árum síðan og er nú orðinn einn af bestu borðtennisleikurum landsins, jafnt meðal fatlaðra sem ófatlaðra. Jóhann er nú nýkominn heim frá Florida í Bandaríkjunum þar sem hann tók þátt í US Open borðtennismótinu í Fort Lauderdale 5.-9. júlí. Þetta mót er flokkaskipt og er eitt fjögurra stærstu borðtennismóta jarðar. Jóhann stóð sig með glæsibrag á mótinu, en hann hafnaði í þriðja sæti í liðakeppninni, ásamt Íranum Rooney Ronan. Mótið er stigamót, þar sem hver unninn leikur gefur 20 stig sem telja á styrkleikalista alþjóða borðtennissambandssins. Jóhann var í 36. sæti fyrir tvö síðustu mót, en hefur nú hækkað sig um a.m.k. 10 sæti. Jóhann var ekki einn á ferðinni í Florida, heldur var með honum annar íslenskur keppandi, Viðar Árnason úr Reykjavík. Íþróttafélag fatlaðra var þeim félögum innan handar með skráningu í mótið, en Jóhann sá sjálfur um allan undirbúning og skipulagningu og naut við það góðs stuðnings frá traustum stuðningsaðilum. „Ég vil endilega koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hafa stutt við bakið á mér, því án þeirra hefði verið erfitt fyrir mig að komast í mótið og ná svona langt“, sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir á dögunum. Aðspurður um hvert hann stefni í íþróttinni, segist hann ætla að reyna að komast á eitt til tvö mót í viðbót á þessu ári, en framtíðaráformin eru að komast á Ólympíuleikana í Grikklandi árið 2004.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024