Hvorugt Suðurnesjaliðið í úrslit
Grindavík og Keflavík töpuðu
Hvorki Grindvíkingum né Keflvíkingum tókst að tryggja sér sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í körfuboltanum, en bæði lið töpuðu leikjum sínum í kvöld.
Keflvíkingar fóru til Þorlákshafnar og háðu mikla baráttu við Þórsara sem endaði með 100:79 sigri heimamanna. Leikurinn var jafn og mjög spennandi alveg fram í lokaleikhlutann, en þá tóku heimamenn öll völd og allur vindur virtist úr Keflvíkingum.
Magnús Már Traustason var frábær hjá Keflvíkingum en hann skoraði 24 stig, 8 fráköst og hitti ákaflega vel úr skotum sínum. Earl Brown hafði hægt um sig en hann skoraði aðeins 11 stig fyrir Keflvíkinga í kvöld. Valur Orri var með 18 stig og Guðmundur Jóns 14.
Grindvíkingar þurftu að glíma við sterka KR-inga. Þeirri glímu lyktaði með 70:80 sigri KR þar sem Vesturbæingar voru yfirleitt skrefinu á undan Suðurnesjamönnum. Jón Axel Guðmundsson var bestur Grindvíkinga með 25 stig og 12 fráköst. Þorleifur Ólafs var með 17 stig og Charles Garcia skilaði tvennu 13/11.