Hvernig náðu tvö útlensk ungmenni að spjara sig á Suðurnesjum?
„Íþróttir eru frábær leið til þess að kynnast fólki og komast inn í samfélagið,“ sögðu þau Maciek Baginski og Filoretta Osmani á kynningu sem þau héldu fyrir grunnskólanemendur í Myllubakkaskóla en yfirskrift kynningarinnar var „Vertu memm“ sem er samstarfsverkefni fræðslu- og velferðarsviðs Reykjanesbæjar og miðar að því að fjölga börnum sem eru af erlendum uppruna í íþróttastarfi.
Maciek er Pólverji og flutti til Íslands þegar hann var 5 ára. Hann er 25 ára og er þekktur leikmaður með meistaraflokksliði Njarðvíkur í körfubolta. Filoretta er fædd í Kósóvó og lék einnig körfubolta með Njarðvík um tíma. Hún sagði m.a. í sínu spjalli að íþróttirnar hefðu gert mjög mikið fyrir hana.
Víkurfréttir fylgdust með kynningu í Myllubakkaskóla en sambærileg kynning fór einnig fram í Háaleitisskóla. Krakkarnir hlustuðu á þau Maciek og Filorettu en fengu einnig kynningu á starfi íþróttafélaganna, Keflavíkur og Njarðvíkur. Þar er mjög fjölbreytt úrval íþróttagreina en einnig er margt fleira í boði í félagsstarfi fyrir ungmennin. Markmið svona kynningar er að sögn Hafþórs Birgissonar hjá Reykjanesbæ að hvetja útlensk ungmenni sem hafa sest að á Suðurnesjum til að taka meiri þátt í íþróttum og félagsstarfi en þátttakan hefur ekki verið nógu mikil.
Sjónvarp Víkurfréttir ræddi við þau Maciek og Filorettu og þau viðtöl verða í þætti vikunnar í Suðurnesjamagasíni sem er frumsýnt kl. 20.30 á fimmtudagskvöld á Hringbraut, Kapalvæðingu og vf.is.