Hvar er stuðningurinn?
Þetta er spurning sem gaman væri að fá svar við. Nú í sumar hefur aðsókn að leikjum Keflavíkur verið mjög dræm hér heima og veldur það mér miklum vonbrigðum.Heimavöllur með góða hvatningu er eitt það sterkasta sem nokkuð félag getur átt. Í gegnum tíðina hafa flest lið hræðst að koma til Keflavíkur og var það ekki bara vegna þess hversu gott lið við höfðum á að skipa heldur vegna áhorfenda sem studdu liðið mjög vel. Er þetta búið? Hér um árið þegar við spiluðum tvívegis gegn ÍBV í bikarnum var stuðningurinn það mikill að við yfirgnæfðum adstæðingana. Já, þá var gaman að vera Keflvíkingur. Stuðningur á útivöllum er oft meiri en heima t.d gegn KR í Laugardal nú í sumar enda unnum við. Næsti heimaleikur Keflavíkur er einmitt gegn ÍBV þann 3. ágúst og þá gefst okkur tækifæri á að sýna þeim að við höfum engu gleymt og yfirgnæfum þá bæði á áhorfendastæðum sem og á leikvelli því að ég veit að strákarnir okkar eflast þegar þeir heyra í ykkur góðir stuðningsmenn. Keflavík leikur í átta-liða úrslitum coca cola bikarsins þann 12. ágúst og þar geta stuðningsmenn hjálpað til við að komast áfram og síðan áfram á Laugardalsvöllinn í haust, því að við vitum hversu skemmtilegt er að spila til úrslita. Ég vil hvetja foreldra barna í yngri flokkum Keflavíkur til að fjölmenna á leiki því enginn veit hvenær þeirra barn spilar í efstu deild. Svona í lokin vil ég rifja upp hversu gaman mér þótti að sjá gömlu meistarana úr Keflavík koma á völlinn nú í vor og vildi ég gjarnan sjá gamla leikmenn liðsins koma oftar á völlinn. Keflavík á tindinnEinar Helgi Aðalbjörnsson.