Hvar er sigurviljinn Keflavíkurstúlkur?
Íslandsmeistarar Keflavíkur í Iceland Express deild kvenna virðast vera á leiðinni í sumarfrí eftir slaka frammistöðu og tap gegn KR í undanúrslitum mótsins á heimvelli þeirra röndóttu í gær. Lokatölur urðu 69-54 og Keflavík er komið upp að vegg og þarf að sigra í næstu þremur viðureignum til að komast í úrslit.
Frammistaða Keflavíkurstúlkna í fyrstu tveimur leikjunum og þá sérstaklega í þessum leik í gær hefur valdið miklum vonbrigðum. Burðarásar liðsins í vetur, þær Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir hafa algerlega brugðist og þær gerðu það líka í bikarúrslitaleiknum við KR. Þær tvær hafa skorað um 50 stig saman í flestum leikjum í vetur en í þessum þremur leikjum gegn KR hafa þær verið langt frá sínu besta. Voru t.d. báðar undir tíu stigum í gærkvöldi. Sama má segja um Svövu Ósk Stefánsdóttur sem hefur leikið vel í vetur en klikkað líka í þessum stóru leikjum. Aðeins Bryndís Guðmundsdóttir hefur staðið upp hjá Keflavík í stóru leikjunum og hefur hreinlega haldið liðinu á floti að undanförnu. TaKesha hefur engan veginn náð sér á strik og mörgum áhagendum Keflavíkur hefur fundist innkoma hennar ekki hafa haft góð áhrif á liðið heldur frekar dregið út frumkvæði annarra. Hún virðist engan veginn í sama formi og þegar hún lék hér með Keflavík í fyrra.
KR náði mikilli forystu í byrjun og staðan eftir fyrsta leikhluta var 26-8 og í hálfleik munaði tuttugu stigum. Keflvíkingar léku slaka vörn og ekkert gekk í sókn, sjálfstraust leikmanna var í algeru lámarki.
Í þriðja leikhluta fóru áhorfendur að kannast við Keflavíkurliðið og það skoraði 15 stig í röð og munaði þá aðeins 4 stigum. En þá komu 3 þristar á skömmum tíma hjá KR, öll af sama stað, neðst til vinstri á vallarhelmingi Keflavíkur, og það var of mikið. Þetta hreinlega slökkti í Keflvíkurstúlkum.
KR liðið hefur sýnt það í þessum tveimur leikjum að það nær upp meiri baráttu og keppnisanda í þessum stóru leikjum. Ætli Keflavík ekki að fara snemma í sumarfríið þurfa stúlkurnar að ná upp gamla sigurandanum sem svo oft hefur verið til staðar og skilað Keflavík tólf Íslandsmeistaratitlum á síðustu tveimur áratugum og ellefu bikartitlum.
Jón Halldór, þjálfari Keflavíkur átti afmæli í gær en það er ekki hægt að segja að stúlkurnar hafi gefið honum afmælisgjöf. Þær hljóta að hafa gleymt því að kappinn átti afmæli.
Sem sagt; nú þarf að finna sigurandann sem Keflavík þekkir svo vel. Koma svo stelpur, þið getið þetta!
TaKesha sækir að körfu KR og er talandi dæmi um erfiðaleika Keflavíkur í leiknum. Mynd/karfan.is