Humarsalan sigraði firmamót UMFN
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur stóð fyrir firmamóti síðastliðinn laugardag þar sem gamlar og góðar kempur fjölmenntu. Að þessu sinni var það Humarsalan sem hafði sigur á mótinu og það með nokkrum yfirburðum. Jakob Hermannsson hefur til fjölda ára sýnt að hann er lunkinn þjálfari enda réð hann til liðsins Pál Kristinsson margfaldan Íslands- og bikarmeistara sem og tvöfaldan heimsmeistara á heimsmeistaramóti lögreglu- og slökkviliðsmanna. Þá skartaði Humarsalan einnig Jóhannesi Kristbjörnssyni sem 47 ára gamall skyldi alla eftir í reyk þá þegar hann lysti til!
Fleiri kempur létu til sín taka á mótinu en þar má nefna Friðrik Pétur Ragnarsson, Gunnar Einarsson, Ásgeir Guðbjartsson, Sævar Garðarsson, Ólaf Thordersen sem öllu jöfnu er þekktur fyrir vasklega framgöngu hér áður fyrr í handbolta og knattspyrnu en hann sýndi enga miskunn á firmamótinu en hann og liðið hans ÁÁ verktakar höfnuðu í öðru sæti eftir úrslitaleikinn gegn Humarsölunni.