Hulda frábær í fyrsta sigrinum
Hulda Björk Ólafsdóttir fór fyrir liði Grindavíkur í gær þegar þær lögðu Fjölni 81:71 í fyrstu umferð Subway-deildar kvenna í körfuknattleik. Þetta var jafnframt fyrsti leikurinn í nýjum og glæsilegum sal Grindvíkinga.
Leikurinn var jafn og spennandi en heimakonur höfðu þó forystu nánast allan leikinn. Grindavík komst í 19:12 en þá áttu Fjölniskonur góða rispu, gerðu tíu stig í röð og náðu þriggja stiga forystu (19:22) í öðrum leikhluta, þetta var mesta forskot sem gestirnir náðu í leiknum.
Grindvíkingar létu þetta bakslag ekki slá sig út af laginu og sneru leiknum á nýjan leik sér í hag. Grindvíkingar náði mest fimmtán stiga forskoti (75:60) en þær grindvísku héldu forystunni út leikinn.
Hulda átti stórgóðan leik og er stöðugt að vaxa sem leikmaður, hún var með 22 stig í leiknum og 21 framlagspunkt. Charisse Farley var með 23 framlagspunkta en hún var grimm í vörninni og tók tíu varnarfráköst, þá gerði hún tólf stig. Hekla Eik Nökkvadóttir og Eva Braslis voru með sextán stig hvor.
Grindvíkingar hefja mótið með glæsibrag og þær léku góðan varnarleik í gær sem Fjölniskonur áttu fá svör við. Skotnýting var ekki upp á það besta í leiknum og svolítill „vorbragur“ á liðunum en það er ekkert óeðlilegt í fyrsta leik.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fylgdist með leiknum og má sjá myndasafn neðar á síðunni.