Hugur í okkur að klára verkefnið
Eysteinn Hauksson, þjálfari Keflvíkinga í Lengjudeildinni í knattspyrnu, segir í samtali við Víkurfréttir að það væri hugur í mönnum að klára þetta verkefni sem er framundan. Keflvíkingar mæta Grindvíkingum á Nettó-vellinum í Keflavík á laugardag.
„Leikurinn gegn Grindavík er enn einn leikurinn þar sem við verðum að sýna toppframmistöðu, það var gott að ná einum æfingaleik um helgina og losa um það ryð sem var komið í mannskapinn enda höfum við ekki spilað síðan 3. október. Það eru þrír leikir eftir og við viljum sýna okkar bestu hliðar – verst að það skuli ekki vera leyfðir neinir áhorfendur.“