Hugsanlega síðasti Derby-leikurinn í Suðurnesjabæ
Reynir og Víðir skildu jöfn í hörkuslag nágrannaliðanna í 3. deild karla í knattspyrnu í gær. Báðum liðum hefur vegnað vel á tímabilinu og verma Reynismenn topp deildarinnar en Víðismenn voru í þriðja sæti fyrir leikinn í gær.
Það var vel mætt á Bronsvöllinn í Sandgerði í gær þegar grannarnir í Reyni og Víði áttust við og eins og við var að búast var ekkert gefið eftir en það mátti greina taugatitring hjá leikmönnum beggja liða í byrjun.
Gestirnir úr Garði komust yfir snemma leiks með marki Helga Þórs Jónssonar (6’). Markið sló heimamenn aðeins út af laginu og Víðismenn hefðu mögulega getað látið kné fylgja kviði en fóru inn í hálfleikinn með eitt mark.
Í seinni hálfleik var Magnúsi Magnússyni, sem hafði félagsskipti úr Njarðvík í Reyni fyrir leikinn, skipt inn á og það tók hann innan við tíu mínútur að setja svip sinn á leikinn. Magnús skoraði jöfnunarmark Reynis á 66. mínútu og þar við sat.
Fyrir leik var blásið til heljarinnar veislu og sá Magnús Þórisson, Maggi á Réttinum, um veitingarnar. Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, spjallaði við Magga og Andra Þór Ólafsson, formann Reynis, fyrir leikinn.
Viðtölin og myndasafn frá leiknum má sjá neðar á síðunni.