Hrannar spáir í undanúrslitin: Suðurnesjaliðin sigra
Vart get ég talist sérlega spámannlega vaxinn eftir fjórðungsúrslitin þar sem ég spáði aðeins tveimur rétt af fjórum. Engu að síður skal reynt að nýju. Með sama árangri og síðast verður önnur hvor spáin röng, en við sjáum hvað setur. . .NJARÐVÍK - KRHér stefnir í hörku viðureign. Jónatan Bow náði sér af meiðslum á hárréttum tíma fyrir lið sitt og eflir það mikið (þ.e.a.s ef hann helst heill). Ásamt Vassel og Ólafi Orms myndar hann sterkt þríeyki sem getur skorað jafnt inní teig sem utan 3ja stiga línunnar. KR hefur auk þess þokkalega breidd og þeir eru sterkir frákastarar. Mikið mun því mæða á Friðriki Stefáns og Páli Kristins í herbúðum Njarðvíkur í baráttunni undir körfunum. Ef KR-ingum tekst að hægja á leiknum og hleypa honum upp í slagsmál munu þeir standa vel að vígi þar sem þeir eru líkamlega sterkari. En Friðrik þjálfari mun eflaust leggja áherslu á hraðan leik, því þar standast engir Njarðvíkingum snúning. Grimm vörn gefur færi á hröðum sóknarleik, en liðið leikur langbest ef keyrslan næst í gang og andstæðingarnir snúast í hringi. Njarðvíkingar hafa án efa stærra og fjölbreyttara vopnabúr en KR-ingar og auk þess búa þeir yfir gríðarlegri sigurreynslu, en fáir hafa hampað fleiri titlum um dagana en Teitur og þeir Frikkar, Rúnars- og Ragnarsynir. Ekkert er þó unnið fyrirfram. Njarðvík lifir á breiddinni og þó að Teitur sé enn í dag besti „úrslitakeppnisleikmaður” landsins þarf hann töluverða aðstoð frá félögum sínum, sérstaklega Hermanni og Friðriki til að hafa sigur. Einnig gæti Logi lagt talsvert til málanna. Ég hef trú á sigurvilja og hraða Njarðvíkinga og held að þeir gangi frá KR-ingum í fjórum leikjum.GRINDAVÍK- HAUKARÍvar Ásgríms þjálfari Hauka lýsti því yfir á dögunum að Haukar væru betra lið en Grindavík. Hann er væntanlega einn fárra sem eru á þeirri skoðun, sér í lagi eftir fjórðungsúrslitin. Haukar héldu þar uppteknum hætti, en þeir hafa verið slakir í úrslitakeppni síðustu 12 árin. Grindavík sýndi hins vegar mikinn styrk á dögunum gegn Keflavík og sigraði örugglega. Dagur Þórisson var sérlega sterkur, bæði í vörn og sókn, og skytturnar eru góðar, a.m.k. á heimavelli. Það sem gerir þessa viðureign áhugaverða eru ekki síst Gummi Braga og Marel Guðlaugs, Grindvíkingarnir sigursælu, sem nú eru lykilmenn í Haukaliðinu. Þeir leika eflaust af miklum eldmóð en hæpið er að það dugi til sigurs. Haukarnir leika yfirleitt góða hjálparvörn gegn keyrslum inn í vörnina, en þeir eru frekar seinir á fæti og munu eiga í erfiðleikum með Bjarna, Berg og Guðlaug um leið og skothríðin hefst að utan. Kaninn hjá Haukum er þeirra helsti skorari, en hann er ekki mikill liðsmaður og gerir of mikið upp á eigin spýtur. Aftur á móti stjórnar Brenton Grindavík frábærlega og hlutverk hans er afar stórt, það felst ekki eingöngu í stigaskorun. Ef hann gengur heill til skógar og lendir ekki í villuvandræðum, get ég ekki séð Einari Einars og strákunum hans fatast flugið. Ég geri ráð fyrir að þeir vinni sína heimaleiki örugglega, en óvíst er með útileikina. Niðurstaðan verður því Grindvískur sigur, hvort heldur það verður 3-0, 3-1 eða 3-2.Samkvæmt þessu stefnir allt í enn einn Suðurnesjaslaginn um titilinn. Ekki væri það nú leiðilegt .