Hörkuleikur í Grindavík þegar Keflavíkurstúlkur sóttu sigur
Keflavík sótti sigur til Grindavíkur þegar liðin mættust í Domino’s deild kvenna í gærkvöldi. Þær keflvísku unnu nauman sigur 76:80 í hörkuleik.
Grindavík er enn án stiga í deildinni og gengi Keflavíkur hefur verið upp og ofan en þær hafa unnið þrjá og tapað þremur leikjum.
Eftir basl í fyrsta fjórðungi hjá báðum liðum gáfu gestirnir í og leiddu með 13 stigum í hálfleik, 27:40.
Þær grindvísku voru betri í síðari hálfleik og minnkuðu muninn minnst í eitt stig en nær komust þær ekki þó tækifærin hafi verið til staðar. Lokastaðan 76:80.
Grindvíkingurinn Sigurbjörn Daði Dagbjartsson blaðamaður á karfan.is var með skemmtileg viðtöl við þjálfara liðanna eftir leik. Jón Halldór Eðvaldsson sagði m.a. að hann hefði ekki haldið haus en hann fékk m.a. tæknivíti. „Við erum í uppbyggingarstarfi og margir í liðinu í nýjum hlutverkum. Þetta tekur allt tíma en er samt allt á réttri leið,“ sagði Jón Halldór.
Jóhann Árni Ólafsson, þjálfari Grindavíkurstúlkna sagði að liðið sé að tapa allt of mörgum boltum og það þurfi að finna lausn á því. Baráttan hafi verið góð og gleðin til staðar þó svo sigur sé ekki enn kominn í hús.