Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Horfist í augu við veruleikann
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 16. júní 2023 kl. 06:32

Horfist í augu við veruleikann

Kantmaðurinn Sindri Þór Guðmundsson er á sínu sjöunda tímabili með meistaraflokki Keflavíkur en hann var nítján ára þegar hann lék fyrst með meistaraflokki. Sindri er uppalinn í Garðinum og byrjaði að spila með Víði en skipti yfir í Keflavík þegar hann var á seinna ári í fjórða flokki. Víkurfréttir slógu á þráðinn til Sindra eftir jafnteflisleik gegn Stjörnunni í síðustu umferð Bestu deildar karla og við ræddum fótbolta.

Sindri sagði að sér liði eins og Keflvíkingar hefðu tapað stigum í leiknum en Stjarnan jafnaði skömmu fyrir leikslok og svo virðist sem aðstoðardómara leiksins hafi orðið á í messunni skömmu áður þegar mark var dæmt af Keflavík fyrir rangstöðu. „Mér finnst ekki eins og við höfum náð einu stigi út úr leiknum heldur tapað tveimur. Tímabilið hefur verið svolítið upp og niður hjá okkur en í síðustu fjórum leikjum höfum við gert þrjú jafntefli og tapað einum. Ég myndi segja að þetta sé á uppleið hjá okkur, við erum að fikra okkur áfram og vonandi fáum við menn inn úr meiðslum eftir landsleikjahlé.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er svolítið merkilegt að þið eruð að sækja stig á móti efstu liðunum en tapið svo þeim lakari. Þetta hefur ekki alveg verið að falla með ykkur.

„Nei, við vorum þokkalega óheppnir í fyrstu sjö umferðunum. Samkvæmt tölfræði eigum við að vera komnir með miklu fleiri mörk og þá fleiri stig. Við höfum bara ekki náð að troða boltanum inn þegar við höfum þurft þess.“

Magnús að skora og koma Keflavík yfir gegn Stjörnunni eftir frábæran undirbúning Sindra Snæs Magnússonar.

Markmiðið að halda Keflavík uppi

Hvernig heldurðu að tímabilið eigi eftir að þróast, ætlið þið ekki að halda ykkur uppi?

„Jú, það er markmiðið fyrir þetta tímabil – sérstaklega eins og staðan er núna. Safna stigum og halda okkur uppi.

Við ættum ekkert að setja markið neitt hærra en það, bara horfast í augu við raunveruleikann og vita að við erum að berjast um að vera uppi. Við erum með glænýtt lið en eigum alveg möguleika á því, sérstaklega ef við höldum áfram að spila varnarlega eins og við höfum verið að gera í síðustu leikjum. Þá ættum við að geta stolið nokkrum sigrum og komið okkur ofar á töflunni,“ segir Sindri en núna situr Keflavík í neðsta sæti Bestu deildar karla með sjö stig. Það er hins vegar stutt úr fallsæti því liðin í áttunda til tíunda sæti hafa einungir fjórum stigum meira en Keflavík.

Vörnin hefur verið að taka miklum framförum og ég hreifst mjög af frammistöðu Axels Inga [Jóhannessonar] í leiknum gegn Stjörnunni.

„Já, hann er mjög góður og mér finnst fínt að vera á kantinum með hann fyrir aftan mig. Við getum bæði farið í sókn og vörn og það hjálpar mikið að fá þennan „aukamann“ með í sóknina. Annars er maður bara svolítið einn – og í leikkerfinu sem við spiluðum á móti Stjörnunni þá mega bakverðirnir fara upp – eiga bara að vera hátt uppi. Það er meira vesen fyrir þeirra kantmenn því við erum þá með þrjá í vörninni.

Þetta fimm manna varnarkerfi hentar okkur mjög vel, við erum að ná að loka vel á sóknir andstæðinganna og svo erum við góðir að sprengja upp en það vantar smá að vera komnir á rétta staði til að klára færin og skora.“

Axel Ingi hefur verið sterkur í vörninni en hann er skotfljótur fram þegar tækifæri gefast..

Sumarið er fjölskyldutími

Sindri er umsjónarkennari fjórða bekkjar í Stapaskóla en hann er í kennaranáminu. „Ég var að klára fyrsta árið mitt í kennslu og fyrsta árið í náminu. Það er nóg að gera fyrir utan fótboltann,“ sagði Sindri sem er í sambúð og með tvö ung börn.

Þannig að það er kennarinn sem heillar.

„Já, það hentar mér ágætlega vinnulega séð – fríið er heldur ekki slæmt. Maður ver svo tímanum með fjölskyldunni, svona fjölskyldutími yfir sumarið,“ sagði hann að lokum.