Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Horfir til framtíðar
Föstudagur 8. september 2006 kl. 09:23

Horfir til framtíðar

Keflavíkurkonur luku keppni í Landsbankadeild kvenna í 5. sæti deildarinnar eftir 3-1 sigur á Þór/KA í síðustu umferð mótsins. Þær Nína Ósk Kristinsdóttir og Vesna Smiljkovic gerðu fyrstu tvö mörk Keflavíkur en fyrirliðinn Lilja Íris Gunnarsdóttir gerði þriðja og síðasta markið í leiknum. Víkurfréttir fengu Lilju til þess að gera upp sumarið en hún telur að mikilvægast sé um þessar mundir að hlúa sem allra best að yngri flokka starfinu í Keflavík.

„Við stefndum á fjórða sætið í sumar en töpuðum einum leik gegn Stjörnunni sem varð til þess að við urðum fyrir neðan þær,“ sagði Lilja og bætti við að Keflavík hefði einnig stefnt að því að gera toppliðunum erfitt fyrir og telur að það hafi tekist. Keflavíkurliðið missti sterka leikmenn frá síðustu leiktíð og tefldi fram fimm erlendum leikmönnum í sumar. „Kjarni liðsins er ekki stór hjá okkur og enn er nokkur munur á stelpunum í 2. flokki og þeim í meistaraflokki en sumar hverjar úr 2. flokki hafa verið að koma sterkar inn.“

Lilja telur það raunhæft að Suðurnesin geti telft fram sterku liði í efstu deild en Keflavíkurliðið samanstendur af leikmönnum alls staðar af Suðurnesjum. Sjálf er Lilja frá Sandgerði en þetta var hennar fyrsta leiktíð sem fyrirliði Keflavíkurliðsins. „Sumarið var annasamt en þetta er í fyrsta sinn sem ég tek þátt í öllu ferlinu með Keflavík en hér áður missti ég yfirleitt af undirbúningstímabilinu með liðinu því ég var í námi í Noregi,“ sagði Lilja.

Valur og Breiðablik höfðu þónokkra yfirburði í sumar og aðspurð um hvað væri til ráða til þess að brúa bilið svaraði Lilja: „Það er kannski ein leið að sterkustu leikmennirnir fari að reyna fyrir sér erlendis, en við hjá Keflavík verðum að halda í okkar hóp og byggja hann vel upp og hlúa vel að þeim kvennaflokkum sem eru til staðar. Enn sem komið er verðum við að notast við erlenda leikmenn en vonandi getum við byggt upp sterkt lið skipað stelpum hér af svæðinu. Ég myndi vilja sjá ekta heimalið frá Suðurnesjum í Landsbankadeild,“ sagði Lilja að lokum sem gerir fastlega ráð fyrir því að bera fyrirliðabandið fyrir Keflavík á næstu leiktíð.

[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024