Hörður Sveinsson aftur á heimaslóðir
Hörður Sveinsson framherji mun leika með Keflvíkingum það sem eftir er leiktíðar í Pepsi-deildinni í fótbolta. Þetta staðfesti Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga í samtali við Víkurfréttir fyrr í kvöld. Zoran kvaðst ánægður með að fá heimamann til að aðstoða liðið og sagði að hann ætti eftir að koma til með að auka breidd og samkeppni innan liðsins. „Hann hefur kannski ekki fundið sig alveg hjá Val og nú fær hann tækifæri á að sýna aftur hvað í honum býr,“ sagði Zoran en Hörður gekk til liðs við Val árið 2010.
Zoran bjóst ekki við því að fleiri leikmenn kæmu inn áður en glugganum lokaði en þó útilokaði hann ekki neitt. „Ég hefði viljað fá miðvörð í liðið til að fylla skarð Gregor Mohan sem hvarf á braut frá liðinu.“
Hörður kemur á lánsamning frá Valsmönnum til tveggja mánaða en félagsskiptaglugginn lokar í kvöld í íslenska fótboltanum.