Hörður bestur og Bojan efnilegastur
Lokahóf knattspyrnudeildar Keflavíkur
Keflvíkingar héldu lokahóf sitt í knattspyrnu á laugardagskvöld en síðasta umferð Pepsi deildar karla fór þá fram fyrr um daginn. Keflvíkingar töpuðu sínum síðasta leik á mótinu gegn Breiðablik í Kópavogi, 3-2 í leik sem breytti litlu máli hvað varðar stöðuna í deildinni. Mörk Keflvíkinga gerðu Elías Már Ómarsson og Bojan Stefán Ljubicic úr vítaspyrnu.
Keflvíkingar enduðu tímabilið í 9. sæti með 24 stig að þessu sinni. Margir höfðu spáð liðinu falli en frábær spilamennska liðsins síðari hluta móts tryggði veru þeirra í deild þeirra bestu.
Á lokahófinu voru nokkrir leikmenn heiðraðir fyrir gott sumar eins og lög gera ráð fyrir. Markahrókurinn Hörður Sveinsson var valinn besti leikmaður Keflvíkinga en hann var einnig markahæstur með níu mörk. Bojan Stefán Ljubicic var svo valinn efnilegastur og Elías Már átti mark ársins. Það mark skoraði hann gegn Breiðablik fyrr í sumar á Nettóvellinum.
Elías skoraði með þrumufleyg gegn Blikum í sumar og það var valið mark ársins í Pepsi-deildinni.