Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hörður Axel til Keflavíkur
Föstudagur 20. júní 2008 kl. 01:25

Hörður Axel til Keflavíkur

Dramatíkin og sviptingarnar á leikmannamarkaðnum í körfunni halda enn áfram og nú hefur landsliðsbakvörðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson gengið til liðs við Íslandsmeistara Keflavíkur frá UMFN. Þetta er staðfest á heimasíðu Keflavíkur í kvöld. Hörður lék í eitt ár með Njarðvík eftir að hafa fært sig um set frá uppeldisfélagi sínu, Fjölni.

Þessar fréttir koma í kjölfar tíðinda af því að Arnar Freyr Jónsson er farinn til Grindavíkur og eru sennilega síðustu stórtíðindin úr þessum ranni í sumar.

Frá lokum leiktíðar hefur verið mikið um hrókeringar á leikmönnum í röðum Suðurnesjastórliðanna Grindavík, Keflavík og Njarðvík þannig að sjóuðustu menn muna vart annað eins á svo stuttum tíma. Þá vekur athygli að Njarðvíkingar hafa séð á eftir sex lykilmönnum úr liði sínu í  vetur. Einungis Jóhann Árni Ólafsson og Friðrik Stefánsson eru enn eftir af þeim sem léku meira en 10 mínútur í leik fyrir þá í vetur. Þó hafa þeir fengið Magnús Þór Gunnarsson, stórskyttu og fyrirliða Keflavíkur, til liðs við sig.

Til að gefa betri yfirsýn á málin fylgja hér helstu félagaskipti:
Brenton Birmingham UMFN=>UMFG
Damon Bailey UMFN=>UMFG
Guðmundur Jónsson UMFN=>Þór Ak.
Magnús Þór Gunnarsson Keflavík=>UMFN
Arnar Freyr Jónsson Keflavík=>UMFG
Sverrir Þór Sverrisson UMFN=>Keflavík
Egill Jónasson UMFN=>Danmörk
Hörður Axel Vilhjálmsson UMFN=>Keflavík

Er óhætt að segja að fróðlegt verði að sjá hvernig deildin muni þróast næsta vetur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VF-mynd/JBO - Hörður Axel í grænu