Hörður Axel kveður Keflavík
Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði karlaliðs Keflavíkur og þjálfari kvennaliðsins, hefur sagt upp samningi sínum við Keflavík. Hann fylgir því fordæmi bróður síns, Hjalta Vilhjálmssonar, sem tilkynnti afsögn sína sem þjálfari karlaliðs Keflavíkur eftir tímabilið og þar að leiðandi mun Hörður Axel hvorki leika með karlaliðinu á næsta tímabili né þjálfa kvennaliðið.
Hörður Axel hefur leikið með Keflavík frá og með tímabilinu 2008/2009 ef frá eru tekin tímabilin þar sem hann lék erlendis í atvinnumennsku. Hörður gerði kvennalið Keflavíkur að deildarmeistara í ár en liðið hafnaði að lokum í öðru sæti Íslandsmótsins eftir tap í einvígi við Val í um titilinn.
Þrátt fyrir að hafa hvorki náð að landa bikarmeistaratitli né Íslandsmeistaratitli með Keflavík komst liðið ansi nálægt því í tvígang með Hörð Axel innanborðs. Tímabilið 2009/2010 þegar Keflavík tapaði fyrir Snæfelli úr lokaúrslitum og tímabilið 2020/2021 þegar Keflavík laut í lægra haldi fyrir Þór Þorlákshöfn í úrslitaeinvíginu.
Hörður hefur verið gríðarlega mikilvægur liðsmaður Keflavíkurliðsins og það sást bersýnilega hve stóran þátt hann lék í liðinu á seinni hluta þessa tímabils þegar hann var frá vegna meiðsla. Keflavík var lengst af í afar sterkri stöðu á toppi deildarinnar en hafnaði að lokum í fjórða sæti. Hörður hefur sýnt að þar fer góður leikstjórnandi sem skilur eftir sig stórt skarð í Keflavíkurliðið sem erfitt verður að fylla.
Keflavík þakkar herði samfylgdina í færslu á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildarinnar en þar segir:
„Um leið og Keflavík þakkar Herði Axel fyrir tíma hans hjá Keflavík óskum við honum góðs gengis í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni. Hann er ávallt velkominn aftur, hvort sem það verður í búning eða sem þjálfari. Hörður Axel á stóran stað í hjarta Keflvíkinga og telst svo sannarlega „Sannur Keflvíkingur“.“
Byggt á færslu á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur