Hörður Axel í raðir Njarðvíkinga
Bakvörðurinn snjalli úr Grafarvogi, Hörður Axel Vilhjálmsson, er á leið í raðir Njarðvíkinga og mun leika með grænum í
Hörður kom nýverið heim að utan þar sem hann reyndi fyrir sér hjá atvinnumannaliði en uppskar ekki fyrir erfiði sitt. Hann kvaðst spenntur fyrir vetrinum með Njarðvíkingum og vildi prófa eitthvað nýtt eftir að hafa aðeins leikið með Fjölni á Íslandi. ,,Það er rík hefð í Njarðvík og ég þekki ágætlega til þarna þar sem ég hef verið að æfa með leikmönnum liðsins í A-landsliðinu sem og yngri landsliðunum,” sagði Hörður Axel.
Hörður fer á sína fyrstu æfingu með Njarðvíkingum annað kvöld og þá er aðeins tímaspursmál hvenær samningur hans við félagið verður undirritaður. ,,Ég er mjög spenntur fyrir þessu verkefni og þetta gæti orðið virkilega gaman,” sagði Hörður sem á síðustu leiktíð lék alls 11 deildarleiki fyrir Fjölni og gerði í þeim 15,2 stig að meðaltali í leik.
Teitur Örlygsson, þjálfari Njarðvíkinga, kvaðst himinlifandi yfir komu Harðar og sagði hann viðbótina sem liðið þurfti á að halda. ,,Ég hefði vissulega viljað fá leikstjórnendurna mína fyrr inn í hópinn,” sagði Teitur en Hörður kom nýverið að utan og Sverrir Þór Sverrisson er við það að ljúka knattspyrnuvertíðinni með Njarðvíkingum.
,,Eins og ég sagði í upphafi þá vildum við eftir fremsta megni styrkja liðið með íslenskum leikmönnum. Hörður er mikill íþróttamaður og ógn sóknarlega og hefur mjög góða hæð í leikstjórnandann,” sagði Teitur sem hittir Hörð fyrir á sinni fyrstu æfingu með Njarðvíkingum á þriðjudagskvöld.
Mynd: www.fjolnir.is - Hörður Axel Vilhjálmsson