Hörður Axel - „Ætla að halda öllum sem ég dekka undir 15 stigum“
Íþróttaárið 2010: Hörður Axel Vilhjálmsson var á dögunnum kjörinn íþróttamaður Keflavíkur og er það annað árið í röð sem honum hlotnast sá heiður. Hörður fór fyrir liði Keflvíkinga á árinu er þeir háðu blóðugt lokaeinvígi við Snæfellinga og þurftu að lúta í lægra haldið. Hörður er sífellt að bæta sig sem leikmaður en metnaðurinn er greinilega mikill hjá pilti og er hann er sannarlega frábær fyrirmynd fyrir unga íþróttamenn. Á komandi ári ætlar Hörður sér stóra hluti og ekkert annað en Íslandsmeistaratitill sem kemur til greina. Einnig ætlar Hörður sér að halda öllum andstæðingum sínum undir 15 stigum. Keflvíkingar taka á móti ÍR-ingum í kvöld og verður forvitnilegt að sjá hvort Herði takist ætlunarverk sitt og haldi leikstjórnenda þeirra undir 15 stigum.
Hvað finnst þér standa upp úr í íþróttalifinu á Suðurnesjunum árið 2010?
Það sem mér fannst helst standa uppúr voru leikirnir milli keflavíkur og Njarðvíkur. Það myndaðist mjög mikil stemning og fjör í kringum seríuna í úrslitakeppninni og eina sem hefði getað toppað þá seríu er að hun hefði verið úrslitaserían.
Hvernig metur þú líðandi ár hjá þér persónulega?
Ég met það ágætlega. Ég náði ýmsum markmiðum sem ég setti mér, en einnig tókst mér ekki að ná fullt af markmiðum. Eg tel mig hafa bætt mig sem körfuboltaleikmann andlega, líkamlega og tæknilega. Þannig það hlýtur að vera jákvætt. en ég á samt sem áður langt í land með að komast á þann stall sem ég vil vera á og það þýðir bara að maður verður að halda áfram að leggja hart að sér og jafnvel harðar en maður hefur gert áður.
Hver eru markmið þín árið 2011?
Ég set mér alltaf mörg markmið fyrir hvert tímabil og einnig langt fram í tímann. Þessi markmið eru bæði smáatriði sem enginn gæti giskað á og svo augljós atriði sem flestir hljóta að setja sér sjálfir ef þeir eru i keppnisíþróttum. Til að taka eitthvað smá út þá hef ég t.d. sett mér það markmið að halda öllum þeim leikmönnum sem ég dekka undir 15 stigum og einnig hef ég sett mér það markmið að enda uppi sem Íslandsmeistari.