Hörður áfram í herbúðum Keflvíkinga
Framherjinn Hörður Sveinsson hefur skrifað undir samning við Pepsi-deildarlið Keflvíkinga sem mun tryggja veru hans hjá félaginu til loka ársins 2014. Heimasíða Keflvíkinga greinir frá en eins og kunnugt er kom Hörður aftur til liðs við Keflvíkinga í sumar eftir stutta dvöl hjá Valsmönnum.
Hörður lék með öllum yngri flokkum Keflvíkinga og lék fyrst með meistaraflokki árið 2001. Árið 2005 gekk Hörður til liðs Silkeborg í Danmörku en kom aftur til Keflavíkur árið 2008 áður en hann hélt til Vals árið 2012.
Hörður hefur leikið 124 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim 36 mörk. Þá hefur hann leikið 14 bikarleiki og skorað eitt mark en það var einmitt í úrslitaleiknum þegar Keflavík varð bikarmeistari 2004. Síðast en ekki síst á kappinn að baki sex Evrópuleiki og fimm mörk en Hörður skoraði fjögur mörk í sama leiknum gegn Etzella frá Lúxemborg árið 2005.