Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 21. nóvember 2003 kl. 13:04

Hópbílabikarinn um helgina- Hin Fjögur Fræknu!

Um helgina verður leikið til úrlita um Hópbílabikar karla í körfuknattleik í Laugardalshöllinni. Í kvöld fara undanúrslitin fram og á morgun verður úrslitaleikurinn.

Keflavík, Grindavík og Njarðvík tryggðu sér öll þátttöku með góðum sigrum í síðustu umferð þar sem Keflavík vann Hamar, Njarðvík vann KR og Grindavík vann ÍR. Auk þeirra er Tindastóll enn með í keppninni. Svo skemmtilega vill til að þessi fjögur lið eru þau einu sem hafa unnið þessa keppni frá upphafi. Keflavík hefur hampað bikarnum fjórum sinnum (‘97-’98-‘99-’03), Grindavík(‘01), Njarðvík(‘02) og Tindastóll(‘00) einu sinni hvort.

 

Fyrri leikur undanúrslitanna er viðureign Grindavíkur og Njarðvíkur sem hefst kl. 18.30.

 

Bæði lið hafa byrjað tímabilið vel þar sem Grindavík er efst í Intersport-deildinni og hefur unnið alla sína leiki þar. Njarðvík er í öðru sæti með 8 stig ásamt öðrum.

Bæði lið ættu að koma til leiks með nánast sömu lið og þeir hafa notað í síðustu leikjum en þó sakna Grindvíkingar Steinars Arasonar sem er fjarverandi vegna meiðsla auk þess sem bakslag kom á bata Helga Jónasar Guðfinnssonar sem gæti orðið til þess að hann missti af leiknum. Njarðvíkingar hafa hins vegar engu að kvíða þar sem Brenton Birmingham er óðum að ná sér eftir meiðsli sem hafa plagað hann það sem af er tímabilinu og allir aðrir ættu að vera leikfærir.

Leikur liðanna í fyrstu umferð Íslandsmótsins var óhemju spennandi og fengust ekki úrslit fyrr en eftir tvær framlengingar þar sem Grindavík sigraði með tveggja stiga mun. Njarðvíkingar koma því til leiks staðráðnir í að hefna þeirra ófara en Grindvíkingar hafa sýnt það í vetur að það er engin tilviljun að þeir leiða deildina, enda með firnasterkt lið og óhætt er að lofa skemmtilegum og spennandi leik.

 

Í seinni leik undanúrslitana mætast titilhafarnir úr Keflavík og Tindastóll og hefst sá leikur kl. 20.15.

 

Liðin mættust í deildarleik á dögunum þar sem Keflavík hafði sigur í ákaflega kaflaskiptum leik. Í fyrri hálfleik léku Keflvíkingar slaka vörn en tóku sig á í þriðja leikhluta þar sem þeir skelltu í lás í vörninni. Undir lokin urðu þeir full kærulausir og Stólarnir komust meira inn í leikinn en náðu þó aldrei að ógna að neinu marki.

Keflavíkurliðið hefur staðið í ströngu undanfarnar vikur þar sem leikjaskipulagið hjá þeim hefur verið strangt. Til viðbótar við venjulegt álag Intersport-deildarinnar hafa þeir leikið í Evrópukeppni bikarhafa og Hópbílabikarnum. Gengi þeirra hefur þó verið ásættanlegt þar sem þeir unnu annan Evrópuleikinn glæsilega á heimavelli og eru í öðru sæti deildarinnar ásamt Njarðvík og Snæfelli. Því geta þeir þakkað góðri breidd þar sem maður virðist alltaf koma í manns stað og því hafa þeir getað dreift álaginu af lykilmönnum. Keflvíkingar verða þó án Arnars Freys Jónssonar sem fékk heilahristing í leik liðanna í vikunni.

Tindastóll hefur hins vegar átt misjöfnu gengi að fagna það sem af er leiktíð og er nú fjórum stigum á eftir Keflavík eftir að hafa unnið þrjá leiki og tapað fjórum. Ýmislegt býr í þessu liði þar sem þeir hafa átt góða leiki inn á milli og víst er að ekki er hægt að bóka sigur gegn þeim áður en komið er út á gólfið.

Keflavík hlýtur að teljast sigurstranglegra, en í bikarkeppnum er aldrei á vísan að róa. Tindastóll sýndi í síðasta leik liðanna að Keflavík þarf að halda einbeitingunni til að ná hagstæðum úrslitum og komast í úrslitin.

 

Hér má finna mjög góða tölfræðisíðu um sögu keppninnar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024