Holtaskóli og Heiðarskóli í úrslitum Skólahreysti í kvöld
Holtaskóli og Heiðarskóli úr Reykjanesbæ eru meðal tólf skóla í úrslitum í Skólahreysti sem fara fram í kvöld, miðvikudaginn 22. apríl, í Laugardalshöll. Frítt er inn á keppnina í boði Landsbankans sem er bakhjarl Skólahreysti. RÚV sýnir beint frá keppninni á miðvikudag og hefst útsending kl. 20:00.
Mikil hefð er fyrir Skólahreysti í báðum skólum og hafa þeir til samans unnið síðustu fimm keppnir. Holtaskóli hefur farið níu sinnum í úrslit og þrívegis hampað titli, árin 2011, 2012 og 2013. Heiðarskóli hefur farið átta sinnum í úrslit og unnið árið 2010 og 2014.
Skólarnir sem keppa til úrslita auk Heiðarskóla og Holtaskóla eru: Breiðholtsskóli og Réttarholtsskóli frá Reykjavík, Brekkubæjarskóli á Akranesi, Dalvíkurskóli, Fellaskóli í Fellabæ, Grunnskólinn á Ísafirði, Grunnskólinn í Hveragerði, Lindaskóli úr Kópavogi, Síðuskóli á Akureyri og Valhúsaskóli á Seltjarnarnesi.
Keppendur úr Reykjanesbæ
Frá Holtaskóla keppa Eggert Gunnarsson og Þórann Kika Hodges-Carr í hraðaþraut, Hafþór Logi Bjarnason tekur upphífingar og dýfur og Katla Ketilsdóttir tekur armbeygjur og hreystigreip. Einar Guðberg Einarsson er íþróttakennari í Holtaskóla.
Fyrir Heiðarskóla keppa Katla Rún Garðarsdóttir og Arnór Breki Atlason í hraðaþraut, Arnór Sveinsson sem tekur upphífingar og dýfur og Elma Rósný Arnarsdóttir fer í armbeygjur og hreystigreip. Helena Jónsdóttir er íþróttakennari í Heiðarskóla.