Holtaskóli hreppti þriðja sætið í Skólahreysti
Úrslitakeppni Skólahreysti var haldin laugardaginn 21. maí. Góður árangur grunnskóla Suðurnesja í Skólahreysti á síðustu árum hefur ekki leynt sér en fjórir af þeim tólf skólum sem kepptu til úrslita voru frá Reykjanesbæ og hreppti Holtaskóli þriðja sætið í ár.
Lið Flóaskóla bar sigur úr býtum og tók Hraunvallaskóli annað sætið. Fyrir hönd Holtaskóla keppti Almar Örn Arnarson í upphífingum og dýfum, Margrét Júlía Jóhannsdóttir í armbeygjum og hreystigreip og Dagur Stefán Örvarsson og Helen María Margeirsdóttir í hraðaþraut. Almar gerði 51 dýfu og voru það flestar dýfur þetta kvöldið og því sigraði Holtaskóli þá grein. Varamenn liðsins voru þau Ásdís Elva Jónsdóttir, Júlían Breki Elentínusson og Stella María Reynisdóttir. Einar Guðberg Einarsson og Katla Björk Ketilsdóttir voru þjálfarar liðsins.