Hólmsvöllur í Leiru eingöngu opinn félagsmönnum
Golfklúbbur Suðurnsesja hefur lokað velli sínum öðrum en félagsmönnum. Stjórn GS tók ákvörðun þess efnis vegna skýrra skilaboða frá almannavörnum og tilmæla Golfsambands Íslands, lokunin tók gildi klukkan tvö í dag.
Með þessu fylgir GS fordæmi Golfklúbbs Grindvíkinga sem tók samskonar ákvörðun en Golfklúbbur Sandgerðis og Golfklúbbur Vatnsleysustrandar hafa ekki enn lokað fyrir skráningar á sínum völlum þegar þetta er skrifað.
Á vef GS segir m.a.:
„Vegna þessa erfiða Covid 19 ástands, skýrra skilaboða frá almannavörnum og tilmæla frá Golfsambandi Íslands, hefur stjórn GS nú tekið ákvörðun um að loka Hólmsvelli fyrir öllum nema félagsmönnum. Golfvellir á höfuðborgarsvæðinu hafa nú lokað og GSÍ beinir tilmælum sínum til kylfinga þar að leita ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins, enda höfuðborgarbúar beðnir að vera ekki á ferðinni til eða frá svæðinu meira en nauðsyn krefur.“