Holmes fór hamförum í Ljónagryfjunni
Travis Holmes fann svo sannarlega fjölina sína í kvöld en hann skoraði hvorki meira né minna en 45 stig í 96-87 sigri Njarðvíkinga á Valsmönnum í Lengjubikar karla í körfubolta. Travis lét ekki þar við sitja heldur tók hann einnig 13 fráköst og gaf 8 stoðsendingar á félaga sína. Hann var allt í öllu í leik Njarðvíkinga og þegar litið er yfir tölfræði leiksins þá kemur í ljós að hann skilaði 62 framlagsstigum, það gerist vart betra en það.
Njarðvíkingar voru lengi í gang og Valsmenn leiddu í hálfleik 44-48. Njarðvíkingar sigu svo framúr í 3. leikhluta. Mikill hasar var í leiknum og þurfti Styrmir Gauti Fjeldsted leikmaður Njarðvíkinga að leita aðhlynningar vegna þess að hann fékk tvisvar högg á kjamman og talið að tönn hafi losnað hjá honum. Auk þess fór Hamid Dicko leikmaður Vals úr axlarlið undir lok leiksins.
Eftir að Njarðvíkingar náðu forustunni þá var ekkert sem benti til þess að þeir ætluðu að láta hana af hendi og sigurinn frekar öruggur. Valsmenn virðast ekki vera að ná saman sem lið en þó eru hæfileikaríkir leikmenn innan þeirra vébanda en andlega hliðin er að stríða sumum þeirra.
Tölfræði:
Ólafur Helgi: 15 stig
Cameron Echols: 20 stig, 11 fráköst
Travis Holmes: 45 stig, 13 fráköst, 8 stoðsendingar, 2 varin skot
Elvar Már: 9 stig, 6 stoðs
Hjörtur Hrafn: 6 stig, 5 fráköst,