Hólmarar heitari og grimmari unnu Keflavík og tóku forystu 2:1
„Við töpuðum þessu á fráköstunum. Ef við tökum ekki fráköst þá vinnum við ekki þessa leiki,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur eftir fimmtán stiga tap í Toyota höllinni í Keflavík í dag. Lokatölur urðu 85-100.
Hólmarar byrjuðu betur og náðu strax forystu, leiddu með tólf stigum strax eftir fyrsta leikhluta 15-27 og með ellefu stigum þegar flautað var til leikhlés 36-47.
Gestirnir voru miklu grimmari á öllum sviðum en sérstaklega í fráköstunum og tóku 18 fráköst á móti aðeins 7 hjá heimamönnum í fyrri hálfleik. Nick Bradford var betri en enginn hjá Keflavík og skoraði tíu stig í fyrri hálfleiknum og Urule Igbavboa 9 stig. Hlynur Bæringsson var svakalegur hjá Hólmurum og dreif sína menn áfram.
Heimamenn komu hressari til leiks í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn jafnt og þétt og hann varð minnstur 3 stig en lengra komust þeir ekki þrátt fyrir stuð og stemmningu á pöllunum. Hólmarar voru einfaldlega betri í vörninni og þar lá munurinn.
„Slök vörn hefur áhrif á sóknarleikinn.Við þurfum að laga þetta fyrir næsta leik og mætum hvergi bangnir. Þó við séum komnir upp að vegg þá erum við ákveðnir í að klára þetta hér heima í fimmta leik,“ sagði Guðjón þjálfari.
Nick Bradford var bestur heimamanna með 26 stig. Hörður Axel skoraði 20 stig en hann er í erfiðri vinnu að passa upp á Jeb Ivey sem stjórnar leik Hólmara mjög vel. Ljóst að þar er atvinnumaður á ferð og hann hefur haft mjög jákvæð áhrif á Snæfellsliðið sem hefur leikið mjög vel í síðustu tveimur leikjum. Keflvíkingar hafa ekki verið nógu sannfærandi í tapleikjunum og hafa ekki náð að stoppa helstu kanónur og frákastajaxla Hólmara. Hlynur Bæringsson hefur farið á kostum, sömuleiðis Sigurður Þorvaldsson og Matins Berkins. Hlynur einn tók 13 fráköst og skoraði 29 stig í leiknum og samtals tóku Hólmarar 37 fráköst á móti 19 hjá Keflavík. Það segir sína sögu.
„Það vantaði bara meiri vilja hjá okkur en ég vara menn við því að afskrifa Keflavík. Við höfum áður verið upp að vegg,“ sagði baráttujaxlinn Gunnar Einarsson sem lék nær ekkert í síðasta leikhlutanum og það kom ýmsum á óvart. „Ég held hreinlega að Guðjón þjálfari hafi gleymt honum,“ sagði Hörður Magnússon, íþróttafréttamaður Stöðvar 2 sem lýsti leiknum en þeir höfðu orð á þessu atriði, hann og Svali Björgvinsson í lýsingunni.
Næsti leikur er á mánudag og þá geta Hólmarar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn.
Stig Keflavíkur: Bradford 26, Hörður 20, Gunnar Ein. 11, Sigurður G. 11, Jón N. 4.
Stig Snæfells: Hlynur 29, Sigurður 17, Berkis 14, Jeb Ivey 11, Jón Ólafur 10, aðrir minna.
Átta leikmenn Snæfells skoruðu en sex hjá Keflavík.
VF-ljósmyndir/Hildur Björk Pálsdóttir.
Urule skoraði þrettán stig í dag gegn Hólmurum. Á myndinni efst er Hörður í sókninni og Ivey til varnar og á næstu mynd er Nick Bradford, besti maður Keflavíkur í dag að skora tvö af 26 stigum sínum í dag. Hann var bestur heimamanna.
Sverrir Þór í baráttunni í dag, Berkis til varnar.