Hólmar skoraði sigurmark Keflavíkur í sætum sigri á Íslandsmeisturum FH
„Þetta var gaman að skora eina mark leiksins. Það er ekki svo oft sem érg skora,“ sagði Hólmar Örn Rúnarsson, fyrirliði Keflavíkur en Keflvíkingar unnu gríðarlega dýrmætan sigur á Íslandsmeisturum FH í lokaleik fyrstu umferðar Pepsi deildarinnar í knattspyrnu á Sparisjóðsvellinum í kvöld. Fyrirliði Keflavíkur, Hólmar Örn Rúnarsson skoraði sigurmarkið á 54. mínútu með skoti inn í teig af stuttu færi.
„Það var líka sætt að leggja Íslandsmeistarana. Við lékum vel, vörnin var þétt og það var gaman að sjá Hauk Inga standa sig svona vel þarna frammi,“ sagði Hólmar sæll og glaður í leikslok.
Keflvíkingar fögnuðu mikið í leikslok enda sigurinn kærkominn þar sem FH ingar stálu Íslandsmeistaratitlinum af þeim í lok móts í fyrra. Kristján Guðmundsson, þjálfari var mjög ánægður með leikinn og sérstaklega varnarvinnuna en miðja hennar er ný frá síðasta sumari með Slóvénann Alan Sutej og Eyjamanninn Bjarna Holm Aðalsteinsson sem miðverði. „FH-ingar fengu ekki mörg færi og ég er mjög sáttur með okkar leik. Það var náttúrulega gríðarlega mikilvægt og sætt að vinna þennan leik. Við misstum aðeins dampinn eftir að þeir misstu manninn útaf en ég sagði mínum mönnum í leikhlé að vera þolinmóðir og það tókst,“ sagði Kristján.
Leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik og það fyrsta markverða sem gerðist var þegar fyrirliði FH, Davíð Þór Viðarsson braut á Hauki Inga Guðnasyni rétt utan við vítateig þegar hann var á leið að marki í dauðafæri. Hárréttur dómur hjá Kristni Jakobssyni sem stóð sig vel í leiknum. FH ingar léku nokkuð harkalega en þeir fengu fjögur gul spjöld en Keflavík ekkert. Heimamenn dofnuðu aðeins við útaf reksturinn og FH ingurinn Atli Guðnason átti skot að Keflavíkurmarkinu sem hinn danski Lasse Jörgensen sem var að leika sinn fyrsta leik í efstu deild með silfurliðinu varði meistaralega.
Keflvíkingar voru mun sterkari aðilinn í síðari hálfleik og uppskáru mark eftir níu mínútur. Simun Samuelsson var með boltann við endamörk á vítateigsmörkum og gaf inn í teig þar sem fyrirliðinn Bói kom og hamraði hann í netið með vinstri fæti við mikinn fögnuð heimamanna og aðdáenda. Símun Samuelsson, Magnús Þorsteinsson og Hörður Sveinsson áttu allir góð marktækifæri sem gátu gefið mörk. FH ingar sóttu nokkuð hart að Keflavíkurmarkinu á lokamínútunum án þess að fá alvöru færi en heimamenn voru einnig mjög hættulegir í mörgum sóknum sínum.
„Það var gaman að vera kominn í Keflavíkurbúninginn aftur enda er ég fæddur hér og uppalinn. Liðinu gekk vel og mér sjálfum líka. Aðalatriðið var að vinna og það tókst,“ sagði Haukur Ingi Guðnason en það eru mörg ár síðan hann lék síðast með sínu gamla félagi.
Aðstæður voru erfiðar í kvöld, rok og bleyta en þó ekki stöðug rigning. Völlurinn skartaði sínu fegursta og Puma stuðningssveit Keflavíkur stóð fyrir sínu. Rúmlega 1300 áhorfendur mættu á Sparisjóðsvöllinn.
Fleiri myndir eru væntanlegar inn á vf.is og videomyndir í fyrramálið með ítarlegri viðtölum við leikmenn.
Efstu myndina með fréttinni tók Páll Orri Pálsson og sýnir Hólmar Örn munda sig við boltann og hamra hann svo í netið sem reyndist sigurmark Keflavíkur. Páll Orri og Hilmar Bragi munduðu báðir ljósmyndavélarnar í kvöld.
Jóhann B. Guðmundsson í baráttunni í FH leiknum. Að neðan er Haukur Ingi Guðnason á fleygiferð.