Hólmar er á heimleið
Keflvíkingar hafa rætt við Óskar Örn
Keflvíkingar hafa svo gott sem gengið frá samningi við Hólmar Örn Rúnarsson sem leikið hefur með FH undanfarin þrjú ár. Hólmar er alinn upp hjá Keflavík og á að baki rúmlega 180 leiki með félaginu í meistaraflokki. Þorsteinn Magnússon hjá knattspyrnudeild Keflavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að samningar væru í höfn og líklega skrifað undir þegar Hólmar kæmi heim erlendis frá á næstunni.
Þorsteinn staðfesti einnig að liðið væri í viðræðum við Guðjón Árna Antoníusson liðsfélaga Hólmars hjá FH, en Guðjón lék með Keflavík frá árunum 2002-2011. „Ég er vongóður um að Guðjón komi en við höfum rætt við hann,“ sagði Þorsteinn. Einnig hafa Keflvíkingar rætt við Njarðvíkinginn Óskar Örn Hauksson sem leikið hefur með KR frá árinu 2007. Keflvíkingar eru spenntir fyrir Óskari sem er að skoða sín mál þessa dagana að sögn Þorsteins.