„Höldum hreinu og vinnum leikinn“
Í kvöld mæta Njarðvíkingar Leikni frá Reykjavík en þeir síðarnefndu trjóna á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu. Með sigri í leiknum geta Njarðvíkingar komist í efsta sæti deildarinnar en síðast þegar liðin mættust var það í Deildarbikarkeppni KSÍ og lauk þeim leik með jafntefli 2-2.
Víkurfréttir settu sig í samband við Friðrik Valdimar Árnason, markvörð Njarðvíkinga, en hann var nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn. „Mér líst vel á þennan leik, við höfum verið að spila ágætlega undanfarið og það er góð samheldni í liðinu. Stefnan er vitaskuld sett á fyrsta sætið í kvöld og allt til loka sumars. Ef við spilum í kvöld sem ein heild eins og við höfum gert undanfarið þá ættum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur,“ sagði Friðrik. Blaðamaður Víkurfrétta var ekki reiðubúinn til þess að sleppa markverðinum knáa fyrr en hann hefði spáð til um leikinn sem Friðrik skoraðist að sjálfsögðu ekki undan. „Við höldum hreinu og vinnum leikinn,“ var svarið og hvort Friðrik reynist sannspár rætist í kvöld en flautað verður til leiks kl. 20:00 á Njarðvíkurvelli.
VF-myndir: Jón Björn, [email protected]