Högg dagsins endaði á klósettglugganum – myndasafn frá mótinu í Leiru
Þau voru mörg skrautleg höggin sem slegin voru á fyrsta opna móti ársins í Leiru í gær en högg eins kvenkyns þátttakanda sem braut rúðuna á klósetthurðinni í Tjarnarkotinu við 10. teig hlýtur að enda í efsta sætinu.
Konan var að slá upphafshögg á 16. teig en ekki vildi betur til en að golfboltinn flaug á ógnvekjandi hraða lengst til hægri frá kylfingnum (þetta er hið hryllilega „sjank“ á golfmáli) og rétt áður en boltinn small á rúðunni á klósetthurðinni gekk maður þar inn. Það munaði því mjög litlu að hann fengi boltann í höfuðið. Hann kíkti út um dyrnar og brosti því þarna munaði litlu.
Konan sem átti högg dagsins tilkynnti það til mótsstjórnar en nokkrir urðu vitni að því, meðal annars starfsmenn frá GS. Hún fékk þó ekki aukaverðlaun en gæti átt von á hringingu frá tryggingafélagi klúbbsins.
Tvö mjög góð golfhögg litu dagsins ljós og keppa óneitanlega við rúðuhöggið. Annað átti Einar Long úr GR, sem jafnframt vann án forgjafar. Hann fékk örn á 17. brautinni þegar hann setti niður 117 metra högg með „pressaðri“ áttu, eins og hann orðaði það. Hitt höggið sem við vitum um var líka örn, eða 2 undir pari, en það gerðist á 2. braut. Það átti Vitor Manuel Guerra Charrua í GKG. Það er afar sjaldgæft að kylfingar nái því að slá ofan í í 2. höggi þar.
Hvort þetta verði byrjun á golftíðinni og fleiri fylgi mót í kjölfarið er ekki gott að segja. Um sjötíu manns voru skráðir í mót í Sandgerði í morgun en veðurguðirnir voru ekki eins góðir því það var mikið rok og kuldi og ekki ólíklegt að einhverjar afboðanir hafi verið. En verði tíðin svona góð áfram stefnir GS að því að halda fleiri mót á næstunni.
Að ofan má sjá nokkra hressa kylfinga sem voru í hópi 123 sem tóku þátt í mótinu. Lengst til vinstri er Sigurður Albertsson sem lék yfir tuttugu golfhringi í janúarmánuði. Hann lét sig ekki vanta í fyrsta opna mótið. Að neðan má sjá Tjarnarkotið þar sem högg dagsins endaði á óvæntan hátt. Smellið hér til að skoða myndasafn frá mótinu.