Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hnefaleikamenn í víking
Þriðjudagur 14. október 2008 kl. 15:00

Hnefaleikamenn í víking

Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) tók um síðustu helgi þátt í HSK BOX CUP 2008 í Danmörku. Mótið hefur verið haldið í bænum Hillerød árlega síðan 1985 og er það fjölsóttasta í Norður-Evrópu — í ár tóku þátt 320 hnefaleikamenn frá 7 þjóðum í 162 viðureignum. Frá HFR fóru þau Andri Már Elvarsson, Ásdís Rósa Gunnarsdóttir, Ástþór Sindri Baldursson, Björn Snævar Björnsson, Eiður Örn Guðjónsson, Hafsteinn Smári Óskarsson og Pétur Ásgeirsson ásamt þjálfurum og liðstjórum, en einnig fór með liðinu Gunnar Kolli Kristinsson frá Hnefaleikafélaginu ÆSIR. Þau Andri Már, Ásdís Rósa, Björn Snævar, Ástþór Sindri og Eiður Örn unnu öll til silfurverðlauna og Hafsteinn Smári náði þeim frábæra árangri að vinna gull í sínum flokki með sigrum á þeim Thomas MacBride frá Englandi og Anders Andersen frá Danmörku.

Daði Ástþórsson, yfirþjálfari HFR, er ánægður með mótið en hann var með í för þegar gömlu kempurnar Skúli Steinn Vilbergsson og Þórður Sævarsson tóku þátt í því árið 2002 og kepptu fyrstir Íslendinga opinberlega í hnefaleikum í tæplega hálfa öld. Á sex árum hefur margt vatn runnið til sjávar og er það ákveðin staðfesting á miklu og góðu grasrótarstarfi hjá félaginu að snúa aftur til Hillerød með stórt, ungt og sterkt lið og ná slíkum árangri. HFR vill þakka Nesprýði, sem kostaði kaup á búningum félagsins, veittan stuðning.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikil gróska er nú í hnefaleikum á Íslandi og verða þrjú mót á dagskránni í nóvember, þar á meðal stórmót gegn Írum í Reykjanesbæ.


Keppnislið HFR ásamt Daða Ástþórssyni þjálfara.


Hafsteinn Smári Óskarsson með gullið ásamt þjálfara.