Hnefaleikakonur reynslunni ríkari eftir Svíþjóðarför
Þrjár Suðurnesjakonur, þær Margrét Guðrún Svavarsdóttir (21 árs), Kara Sif Valgarðsdóttir (14 ára) Hildur Ósk Indriðadóttir (36 ára), eru reynslunni ríkari eftir þátttöku á stærsta alþjóðlega hnefaleikamóti sem haldið er fyrir konur, Golden Girl Box Cup í Svíþjóð 30. jan.-1. feb.
Hildur keppti fyrst á föstudeginum en þar sigraði hún heimakonuna Felicia Jakobsson. Hildur tapaði svo í undanúrslitum í æsispennandi bardaga sem hefði getað farið á báða vegu. Sá keppandi endaði á því að vinna flokkinn. Margrét átti stórgóðan bardaga gegn mjög reyndri, finnskri stúlku. Eftir þrjár öflugar lotur sigraði sú finnska.
Hin fjórtán ára Kara Sif Valgarðsdóttir var að taka þátt í sínum fyrsta bardaga í ólympískum hnefaleikum. Kara er yngsta íslenska konan sem hefur keppt í ólympískum hnefaleikum en hún hefur stundað íþróttina frá því hún var lítil. Hún byrjaði að læra hjá föður sínum og bróður (fyrrum Íslandsmeistara, Hafsteini Smára Óskarssyni). Kara hefur æft í Hnefaleikafélagi Reykjanesbæjar í fjögur ár. Kara átti að vera í C flokki fyrir keppendur með núll til sex bardaga að baki en var færð upp í B flokk vegna skorts á keppendum, sá flokkur er fyrir keppendur með sex til fimmtán bardaga að baki. Kara stóð sig þó eins og hetja á móti breskri stelpu en tapaði í jafnri viðureign og snýr til baka með góða reynslu. Þess má geta að faðir hennar, Valgarður Magnússon, var með í ferðinni og leiðbeindi henni í horninu.
Á mótinu tóku þátt alls 300 stelpur frá 31 landi. Þar á meðal öllum helstu klúbbum í Englandi, Írlandi og Rússlandi.
Hildur eftir sigur í fyrsta bardaganum.