Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hlupu Klemmann á gamlársdag
Þriðjudagur 3. janúar 2012 kl. 09:26

Hlupu Klemmann á gamlársdag

Þríþrautardeild Njarðvíkur (3N) lýkur senn sínu fyrsta starfsári en deildin var stofnuð 17. febrúar 2011. Yfir 30 manns hafa verið að æfa með deildinni síðan þá. Þríþraut er nýleg íþróttagrein sem samanstendur af sundi, hjólreiðum og hlaupi. Þetta er frábær samsetning íþróttagreina, sem reynir mismunandi á vöðvahópa líkamans og er frábær leið til að koma fólki í gott form á nýja heilsuárinu. Mikil áhugi hefur verið á þríþraut á Íslandi á sl. árum og er því spáð að þetta verði tískuíþróttagreinin 2012.

Klemenz Sæmundsson, mikill hlaupari og hjólreiðarmaður, var valinn Þríþrautarmaður Reykjanesbæjar árið 2011 í Íþróttahúsinu í Njarðvík kl.13 á gamlársdag, aðeins 2 tímum eftir að svokölluðum Klemma lauk. Klemminn er hlaupahringur sem Klemenz hleypur oft en hann byrjar á heimili sínu á Heiðarbóli í Keflavík og svokallaður Garðshringur er hlaupin. Þá er hlaupið í Sandgerði, útí Garð og aftur heim að Heiðarbóli (22,7km). Þetta hefur Klemenz gert að morgni gamlársdags í 15 ár og einhverjir hafa hlaupið með honum undanfarin ár. 3N ákvað að slást í för með honum og fjölmenna heim til hans kl.9 að morgni síðastliðinn gamlársdags.

Það voru 18 manns sem mættu heim til Klemenzar þrátt fyrir mikið votviðri og hlupu, keyrðu og hjóluðu með honum. Í fyrstu var mikið slabb á götununum en svo voru göturnar snjólausar en blautar. Slydda var á leiðinni útí Sandgerði en það var nú bara hressandi. Hlaupararnir voru á öllum aldri eða frá 16 ára til 66 ára og hver og einn hljóp eins og hann vildi. Sumir hlupu 5km, aðrir 7, einhverjir 14-21 og meirihluti hlauparanna tóku allan hringinn. 3 hjólreiðamenn hjóluðu hringinn. Formaður 3N, Tyrfingur Þorsteinsson, var að fylgjast með okkur á bílnum sínum og pikkaði fólk upp á leiðinni eftir þörfum.  Þetta var virkilega gaman og endaði með heitu kakói og rjóma heima hjá Klemenzi að hlaupi loknu.  

Þríþrautardeildin er að hefja sitt annað starfsár og verður næsti skráningardagur í deildina mánudaginn 9. janúar eftir sundæfingu deildarinnar í Vatnaveröld kl.18-19. Það eru allir velkomnir að koma og prófa á þessari sundæfingu og þarna er fólk á öllu reki. Æfingarnar eru sniðnar að hverjum og einum. Viljum við hér með hvetja Suðurnesjabúa að koma og prófa eina sundæfingu þeim að kostnaðarlausu, ef að þeim finnst þríþrautin vera spennandi.

Kveðja

Þríþrautardeild UMFN

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024